Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði stöðuna vegna COVID-19 vera heldur rólega, bæði innanlands og á landamærunum en örfá smit greinast nú daglega. „Kúrvan er að fara hægt og bítandi niður,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Aðspurður um hvort smit sem greinast utan sóttkvíar bendi til þess að litlar hópsýkingar séu að koma upp hér á landi sagði Þórólfur svo ekki vera. „Ég held að það sé til marks um að veiran er lúmsk og hún er búin að fara undir radarinn áður en hún fer að greinast eitthvað,“ sagði Þórólfur og bætti við að það mætti búast við því að sjá annað þessu líkt á næstunni.

Hann sagði að þróun faraldursins erlendis sé óhagstæð Íslandi að mörgu leyti þar sem aukning hefur verið í fjölda smita í mörgum löndum. Líkt og greint var frá fyrr í dag var met slegið í fjölda smita á einum sólarhring í gær og varaði yfirmaður WHO í Evrópu við því að næstu tveir mánuðir yrðu erfiðir.

„Menn hafa lengi verið með alls konar spár, slæmar og góðar og þar fram eftir götunum, þannig að maður veit oft ekki á hverju þær byggjast en vissulega er það áhyggjuefni að faraldurinn skuli vera uppsveiflu í mörgum löndum í Evrópu,“ sagði Þórólfur um málið .

Bjartsýnn á að hægt verði að ráðast í frekari tilslakanir

Núverandi takmarkanir á landamærum eru í gildi til 6. nóvember, en þeir sem koma nú til landsins þurfa að fara í tvöfalda sýnatöku og fimm daga sóttkví milli skimana. Þrátt fyrir að mögulega verði hægt að ráðast í tilslakanir þá sé mikilvægt að fara hægt í slíkar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir að smit komi inn í landið.

Takmarkanir sem nú eru í gildi innanlands gilda til 27. september og sagðist Þórólfur vera bjartsýnn á að hægt verði að aflétta takmörkunum enn frekar þá.Stytting sóttkvíar fyrir þá sem hafa verið útsettir fyrir smiti tóku gildi í dag en breytingin verður líklegast framkvæmd á morgun.

Samkvæmt nýju reglunum geta þeir sem eru í sóttkví farið í skimun að sjö dögum loknum og ef þeir eru ekki smitaðir geti þeir losnað úr sóttkví. Þeir þurfi þó áfram að viðhafa ákveðnar varúðarráðstafanir.

„Eins og áður þá held ég að sé rétt að fara hægt í sakirnar að aflétta og gera það í skrefum, tveggja eða þriggja vikna skrefum, eins og við höfum gert áður. Það er líka háð því að allir sýni af sér ábyrgð og viðhafi einstaklingsbundnar sýkingavarnir,“ sagði Þórólfur.