Hópur umhverfisverndarsinna hefur látið kanna hvort áhugi sé fyrir nýju stjórnmálaafli sem leggur áherslu á umhverfisvernd. Samkvæmt henni telja tæp tólf prósent þátttakenda það koma sterklega til greina að kjósa slíkt framboð í næstu kosningum. Rúm 37 prósent til viðbótar segja það kannski koma til greina en rétt rúmur helmingur svarenda segir ekki koma til greina að kjósa slíkt afl í næstu kosningum.

Samkvæmt könnuninni er mestur stuðningur við nýtt umhverfisverndarframboð meðal fólks sem kaus Vinstri græna, Pírata og Samfylkinguna í síðustu kosningum og er fólk á aldrinum 18 til 34 ára langlíklegast til að hafa áhuga á hugmyndinni.

Könnunin var framkvæmd af Gallup dagana 11.–19. júní síðastliðinn. Um netkönnun var að ræða og svarendur voru 820 talsins.Að mati þeirra sem Fréttablaðið ræddi við í hópi áhugamanna um nýtt umhverfisverndarafl, hefur Vinstri grænum mistekist að vera það umbótaafl í íslenskum stjórnmálum sem umhverfismálin og barátta fyrir félagslegu réttlæti þurfi á að halda.

Tveir þingmenn Vinstri grænna hafa sagt sig úr flokknum á kjörtímabilinu, fyrst Andrés Ingi Jónsson og nú Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sem tilkynnti um úrsögn sína úr flokknum í gær. Hvorugt þeirra hefur þó lýst fyrirætlunum sínum opinberlega eða hvort þau eigi þátt í stofnun hins nýja afls. Þau hafa bæði verið orðuð við framboð hjá Samfylkingunni og Andrés Ingi jafnvel með Pírötum.Þá skýrði Eydís Blöndal, varaþingmaður flokksins, frá því síðdegis í gær að hún hefði einnig sagt sig úr flokknum.

Bæði Rósa Björk og Eydís vísa til brottvísunar egypsku fjölskyldunnar úr landi, sem kornsins sem fyllti mælinn.Á hæla þeim Rósu Björk og Eydísi fylgdi svo Hildur Knútsdóttir, fyrrverandi frambjóðandi flokksins, með yfirlýsingu um að hún gæti ekki kosið flokkinn. Hún hrósaði Rósu Björk fyrir að standa með flóttafólki og sannfæringu sinni og auglýsti svo eftir flokki sem hefur umhverfið, jafnrétti og mannúð að leiðarljósi, í færslu á Facebook-síðu sinni.

Hildur er formaður Loftslagssjóðs, skipuð af Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfisráðherra og varaformanni VG.Stirt hefur verið milli Rósu Bjarkar og flokksforystunnar allt þetta kjörtímabil en hún fór ekki leynt með skoðanir sínar á ríkisstjórnarsamstarfinu þegar til þess var stofnað. Rósa var oddviti á lista VG í Kraganum fyrir síðustu kosningar en líklegt þykir að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra og nýr varaformaður flokksins, stefni á framboð í því kjördæmi og af því má leiða að Rósa Björk hafi ekki fundið fyrir mikilli hvatningu til áframhaldandi starfs í þágu flokksins.

Sú ákvörðun forystu Vinstri grænna að hefja ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki eftir síðustu kosningar mætti mikilli andstöðu í grasrót flokksins og fjöldi flokksmanna skráði sig úr flokknum. Flokkurinn fékk tæplega 17 prósenta fylgi í kosningunum 2017 en tapaði miklu fylgi samkvæmt könnunum strax eftir myndun ríkisstjórnarinnar.

Í janúar á þessu ári stóð fylgið í 8,4 prósentum, sem er aðeins helmingur kjörfylgis flokksins. Hann rétti þó töluvert úr kútnum samkvæmt könnunum eftir að heimsfaraldurinn skall á í vor.Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur samtal um nýtt umbótaafl umhverfissinna átt sér stað frá því skömmu eftir síðustu kosningar. Hópurinn er að sögn enn að meta stöðuna og niðurstöður könnunarinnar. Ákvörðun um framhaldið verði tekin fljótlega.