Áhugi ferðamanna á Íslandi heldur áfram að aukast og benda gögn til þess að ákvörðun yfirvalda um að opna landamærin eigi stærstan þátt í því, samkvæmt Íslandsstofu.

„Við sáum talsverða aukningu í leitarfyrirspurnum þegar tilkynnt var að Ísland myndi heimila bólusettum ferðamönnum utan Scheng­en að heimsækja landið, sem vakti mikla athygli í Bandaríkjunum. Að sama skapi sáum við mikla aukningu í áhuga Breta í kjölfar þess að tilkynnt var að Ísland væri á grænum lista fyrir ferðamenn þarlendis. Þá var talsverð umfjöllun um eldgosið í Geldingadölum á fyrstu dögum gossins, auk þess sem að þó nokkur umfjöllun var um landið í tengslum við Óskarsverðlaunatilnefningu lagsins Húsavík,“ segir Daði Guðjónsson, fagstjóri Neytendamarkaðssviðs Íslandsstofu.

Samkvæmt könnunum Íslandsstofu frá lokum febrúar stefna 58% Bandaríkjamanna sem ferðast reglulega, á að ferðast í ár. „Það er dálítið erfitt að setja puttann á það hvað á mestan þátt í að auka áhuga á landinu, en gögn benda til þess að ákvarðanir um að opna landamærin hafi átt stærstan þátt í því. Eldgosið virðist hafa vakið áhuga fjölmiðla í stuttan tíma, en almennt virðist fólk ekki mikið vera að leita að upplýsingum um það, sem gæti bent til að almenn vitund um það sé lítil,“ segir Daði.

Samkvæmt greiningu sem Sahara Social Media gerði fyrir Íslandsstofu um leitarfyrirspurnir vegna eldgossins í Geldingadölum þá eru færri að leita að „Volcano Iceland“ núna en þegar það gaus í Holuhrauni árið 2014. Þá eru leitarfyrirspurnirnar ekkert í líkingu við eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010.

Grafík/Fréttablaðið

Neytendarannsókn Íslandsstofu meðal helstu markhópa á helstu mörkuðum sýnir að ferðamenn eru mjög jákvæðir gagnvart Íslandi. „Það er mikil jákvæðni gagnvart Íslandi og mikið traust um hvernig við erum að meðhöndla Covid-19. Ísland mælist hæst af þeim löndum sem við berum okkur saman við gagnvart trausti,“ segir Daði.

Aðspurðir hversu jákvæðir eða neikvæðir svarendur eru gagnvart ákveðnum ferðaáfangastöðum, voru á milli 82-83% svarenda jákvæðir gagnvart Nýja-Sjálandi, sem var hæsta hlutfallið. Þar á eftir var Ísland, en um 76% svarenda voru jákvæðir gagnvart Íslandi.

Þá sögðust rétt rúmlega 10% svarenda ætla að heimsækja Ísland á næstu 12 mánuðum. Daði segir þetta sýna að íslensk ferðaþjónusta geti endurheimt fyrri stöðu.

„Reynslan hefur kennt okkur að svona meðbyr er hægt að nýta vel í markaðssetningu. Það er hægt að virkja þennan áhuga og fá fólk til þess að heimsækja landið með markvissum aðgerðum. Við teljum því tvímælalaust að það séu mikil tækifæri í stöðunni fyrir íslenska ferðaþjónustu að ná vopnum sínum á nýjan leik og endurheimta fyrri stöðu,“ segir Daði.