Tveir prófessorar í stjórnmálafræði nefna sama punkt þegar spurt er hvað hafi vakið mesta athygli í setningarræðu Bjarna Benediktssonar í gær. Hann hafi varið miklu púðri í Samfylkinguna.

Athygli vekur, að sögn tveggja prófessora í stjórnmálafræði, Eiríks Bergmann prófessors í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst og Grétar Þórs Eyþórssonar Háskólanum á Akureyri, hve Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, gerði Samfylkingunni hátt undir höfði sem höfuðandstæðingi flokksins.
Eiríkur hlustaði á setningarræðu Bjarna á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöllinni í gær og var honum mjög vel fagnað með miklu lófaklappi bæði fyrir og eftir ræðu. Spennandi dagar eru fram undan hjá Bjarna og landsfundarfulltrúum þar sem formannsslagur er fram undan við Guðlaug Þór Þórðarson. Bjarni varði litlu púðri með beinum orðum í slaginn en sitthvað lá undir orðum hans að mati prófessoranna.

Eiríkur Bergmann segir að ræða Bjarna hafi reynt að svara gagnrýnisröddum Guðlaugs Þórs í kosningabaráttunni. ,,Hann tekur inn fólkið í flokknum, hinn almenna flokksmann inn í umræðuna, sem gæti verið svar við gagnrýni Guðlaugs um að Bjarni hafi ekki sinnt grasrótinni nægilega vel,“ segir Eiríkur.
Þá segir Eiríkur að Bjarni hafi lagt áherslu á atvinnulíf og að flokkurinn sé stjórnnmálaflokkur athafnafólks og frumkvöðla, auk skýrrar fullveldisafstöðu.
„En hann gerði Samfylkingunni ansi hátt undir höfði, fannst mér, gerir hana að höfuðandstæðingi Sjálfstæðfilokksins. Það er athyglisvert,“ segir Eiríkur.

Eiríkur segir einnig að Bjarni hafi í ræðu sinni ekki tekið utan um þá öldu mótmæla sem risið hefur í landinu vegna brottflutnings flóttamanna.
„Einhverjir hafa sagt að breytingar á forystu Sjálfstæðisflokksins geti haft áhrif á lífvænleika stjórnarinnar, sem ég tel ofmælt, en það eru mál eins og þetta flóttamannamál sem er skeinuhættara ríkisstjórninni en formannsskipti i Sjálfstæðisflokknum,“ segir Eiríkur.

Mikill áhugi miðað við smæð

Grétar Þór Eyþórsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskólann á Akureyri segir um þann hluta ræðu Bjarna sem varði formannskjörið beint eða óbeint, að Bjarni hafi fyrst og fremst lagt áherslu á að koma því að hve vel hafi tekist í ríkisstjórninni, hversu vel samstarfið hafi gengið þrátt fyrir málamiðlanir.

„Við þær aðstæður þar sem svo vel gengur séu breytingar ekki skynsamlegar. Hann er í raun að halda því á lofti hversu góður formaður hann sé. Guðlaugur fær til að mynda hrós,“ segir Grétar Þór.
Þá segir Grétar Þór áhugavert að Bjarni hafi boðið Viðreisnarfólkið velkomið heim, en líkt og Eiríkur segir Grétar vekja einna mesta athygli hve stór hluti ræðu Bjarna hafi hverfst um Samfylkinguna.
„Samfylkingin fékk mörg föst skot og það er ekki annað að sjá en að Bjarni sjái þar andstæðing sem rétt sé að gefa gaum,“ segir Grétar Þór. „Þetta er athyglivert er horft er til smæðar flokksins eins og staðan er í dag.“