Þótt at­kvæða­greiðslan á Al­þingi í kvöld hafi ekki komið á ó­vart í það heila, var um at­hyglis­verða at­kvæða­greiðslu að ræða að ýmsu leyti.

Mið­flokks­maðurinn Berg­þór Óla­son var eini jöfnunar­þingmaðurinn sem greiddi at­kvæði með stað­festingu eigin kjör­bréfs.

Andrés Ingi Jóns­son og Arn­dís Anna K. Gunnars­dóttir, þing­menn Píratra voru einu jöfnunar­þing­mennirnir sem kusu gegn stað­festingu eigin kjör­bréfa. Aðrir jöfnunar­þing­menn sátu hjá.

Sig­mar Guð­munds­son og Guð­brandur Einars­son sátu hjá í gegnum alla at­kvæða­greiðsluna.

Þingflokkur VG klofnaði

Þingflokkur Vinstri grænna klofnaði í atkvæðagreiðslunni.

Svandís Svavarsdóttir, fulltrúi flokksins í kjörbréfanefnd lagði fram tillögu um uppkosningu í Norðvesturkjördæmi. Ásamt henni studdu þau Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Steinunn Þóra Árnadóttir, þá tillögu. Steinunn virðist hins vegar hafa skipt um skoðun síðar í ferlinu, því þegar tillaga Birgis Ármannssonar um að staðfesta öll kjörbréf kom til atkvæðagreiðslu. Voru fyrst greidd atkvæði um kjörbréf þingmanna allra kjördæma nema Norðvesturkjördæmis og svo að lokum eingöngu þingmanna Norðvesturkjördæmis og viðkomandi jöfnunarþingmanna og greiddi þá Steinunn Þóra með þeirri tillögu, en tillaga um að staðfesta þau kjörbréf fer þvert gegn tillögu Svandísar.

Ólíkt þeim Svandísi, Guðmundi og Steinunni Þóru, kaus Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hins vegar með meirihlutanum um staðfestingu allra kjörbréfa á grundvelli seinni talningar í Norðvesturkjördæmi. Ásamt henni greiddu Kári Gautason og Bjarni Jónsson þeirri tillögu atkvæði sitt.

Orri Páll Jóhannson og Jódís Skúladóttir, jöfnunarþingmenn Vinstri grænna sátu hjá í allri atkvæðagreiðslunni.

Jóhann Páll kaus uppkosningu

Þingmenn Samfylkingarinnar kusu allir með tillögu Svandisar og Þórunnar Sveinbjarnardóttur um uppkosningu í Norðvesturkjördæmi.

Þeirra á meðal Jóhann Páll Jóhannsson sem datt inn á þing í stað Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, eftir seinni talninguna. Jóhann Páll er eini hringekju-jöfnunarþingmaðurinn sem kaus með uppkosningu.

Píratar bæði með og á móti fyrri talningu

Björn Leví Gunnarsson og Gísli Rafn Ólafsson í Pírötum studdu ekki tillögu Indriða Stefánssonar varaþingmanns flokksins um að fyrstu tölur í Norðvesturkjördæmi skyldu gilda. Aðrir þingmenn Pírata studdu þá tillögu.

Flokkur fólksins tryggði meirihlutann

Eini flokkurinn í stjórnarandstöðu sem kaus á flokkslínu með Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki og myndaði meirihluta í atkvæðagreiðslunni, var flokkur fólksins. Þingmenn flokksins studdu allir tillögu Birgis Ármannssonar um staðfestingu kjörbréfa á grundvelli seinni talningar í Norðvesturkjördæmi, líkt og allir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.