Viðræður milli Carbon Iceland ehf. og erlendra fjárfesta hafa staðið yfir undanfarið að sögn framkvæmdastjóra félagsins. Carbon stefnir að því að fanga koltvísýring og nota til framleiðslu á metanóli fyrir skip, flug og önnur samgöngutæki. Eyjólfur Lárusson, framkvæmdastjóri Carbon Iceland, segir að áhugi útlendinganna hafi kviknað eftir að Simens Energy í Þýskalandi fór í samstarf með Carbon Iceland.

„Erlendir aðilar eru komnir að borðinu með það í huga að fjárfesta í félaginu. Einnig eru viðræður í gangi um kaup á öllu því græna, umhverfisvæna eldsneyti sem framleitt verður hjá Carbon Iceland á Bakka við Húsavík,“ segir Eyjólfur.

Hann segir mikla og vaxandi þörf fyrir umhverfisvænt eldsneyti. Sem dæmi hafi eitt stærsta skipafélag heims nýlega gert samning um að kaupa skip fyrir 1,4 milljarða Bandaríkjadala. Skipin muni eingöngu nota umhverfisvænt eldsneyti, metanól, eins og framleitt verði hjá Carbon Iceland á Bakka.

„Þetta er hluti af orkuskiptum sem eru að fara fram víða í veröldinni og eru nauðsynlegur þáttur í að berjast gegn loftslagsbreytingum,“ segir Eyjólfur.