Í langri og ítarlegri frásögn á Facebook-hópnum Fjallastelpur – umræðuhópur um útivist á Íslandi fyrir konur, er íslenskur leiðsögumaður og áhrifavaldur úr fjallaheiminum sakaður um alvarlegt ofbeldi. Íslensk leiðsögukona segir í færslunni frá reynslu sinni af andlegu ofbeldi og kynferðisofbeldi af hálfu mannsins. Hópurinn er lokaður en hann telur 10.300 meðlimi þegar þessi orð eru rituð.

Fréttablaðið hefur fengið leyfi konunnar til að fjalla um færsluna. Hún segist með frásögninni vonast til að fá stuðning og kveðst „langa til að opna umræðuna á ofbeldi og áreiti innan fjallasamfélagsins, sér í lagi þegar valdamismunur er til staðar.“ Á sjötta hundrað athugasemda hafa verið ritaðar við færsluna og fjöldi manns tekur undir upplifun konunnar.

Saga Vítalíu fyllti mælinn

Konan segist hafa verið í tvö ár í ofbeldissambandi með manni sem um þessar mundir fari mikið fyrir í fjallaheiminum. „Ég var beitt miklu andlegu ofbeldi sem einnig var á tímum líkamlegt og kynferðislegt. Þessi aðili hefur upp á síðkastið hrökklast úr starfi sem leiðsögumaður frá tveimur fyrirtækjum og er nú að því er virðist að einbeita sér að sínu eigin fyrirtæki. Þar bíður hann upp á verkefni og ferðir ásamt því að vera styrktur af ýmis fyrirtækjum út í bæ.“

Hún segir að ólga samfélagsins og þær konur sem stigið hafi fram með sínar sögur og skilað skömminni, hafi verið sér hvatning. „Í raun var saga Vítalíu kornið sem fyllti mælinn.“

„Ásamt því að sjá bæði andlit hans og nafn prýða hina ýmsu miðla og koma fram í auglýsingum. Slíkt vekur eðlilega upp slæmar tilfinningar, og sem dæmi í mínu tilfelli áfallastreitu. Þá hef ég einnig óttast öryggi mitt og öryggi fjölskyldu og vina og því kosið að segja mína sögu á annan hátt en opinberlega. Sem betur fer veit nú þegar fjöldi fólks hvaða mann hann raunverulega hefur að geyma.“

Sökuð um að selja sig

Konan segist hafa verið kúnni í fjallaverkefni hjá manninum þegar þau hófu ástarsamband. „Eftir tveggja ára samband komst ég að því að hann hafði verið í ástarsambandi með annarri stelpu úr sama hópi síðasta árið. Þegar ég loks náði að losa mig úr sambandinu komst ég að því að konurnar voru töluvert fleiri sem hann hafi verið með á þeim tíma – einnig hafa komið fleiri á eftir mér,“ segir konan.

„Hann sakaði mig í tíma og ótíma um að halda framhjá honum og m.a. að vera að selja mig,“ segir konan. Í hvert sinn sem hún hafi farið í vinnuferð, og hún hafi farið í margar slíkar vegna stöðu sinnar, hafi hann sakað hana um að sofa hjá öðrum karlmönnum. „Sem dæmi þá hótaði hann því að drepa sig ef ég kæmi ekki heim samstundis, til dæmis eftir hálfan dag í fjögurra daga vinnuferð,“ segir hún.

Konan segir manninn einnig hafa lagt hendur á sig. Í eitt skiptið hafi hann barið hana svo illa að önnur hlið líkama hennar hafi verið blá og marin. Maðurinn hafi síðan sagt að næstur á dagskrá væri góður vinur hennar.

Ráðlagt að gista fjarri heimili sínu

Hún segir manninn hafa ítrekað hótað sjálfsvígi ef hún fór ekki eftir óskum hans. Sömuleiðis hafi hann stöðugt verið í samböndum við aðrar konur á meðan ástarsambandinu stóð. Konan segist hafa óttast um öryggi sitt allan tímann og til að mynda ekki treyst símanum sínum. Hún kveðst hafa heyrt frá nágranna að maðurinn hafi læðst um hverfið og um tíma setið fyrir utan húsið hennar og reynt að komast inn.

Þegar hún sleit sambandinu hafi hún fengið upplýsingar, frá aðila sem tengdist manninum, um að hann gæti reynst hættulegur og var henni ráðlagt að dvelja og gista annarstaðar en á sínu heimili og alls ekki eiga í samskiptum við manninn.

Maðurinn góðkunningi lögreglunnar

Maðurinn hafi þá næst mætt fyrir utan hjá henni þangað til konan hringdi á lögregluna, sem sendi tvo bíla á staðinn. „Lögreglan fékk nafnið strax á honum og sendi tvo bíla sem vanalega er ekki gert, en síðar fékk ég þær upplýsingar að hann væri þekktur og að lögreglan hefði ótal sinnum þurft að hafa afskipti af honum.“ Konan segir að ótal gögn séu hjá lögreglu um manninn og aðrar konur hafi hvatt hana til að segja frá.

Konan segist hvetja fylgjendur mannsins á samfélagsmiðlum til að hætta að fylgja honum. Að það hafi valdið henni mikilli vanlíðan að sjá andlit hans og nafn birtast og segist vita að hún sé ekki eina konan sem upplifi slíkt. „Með því [að rjúfa þögnina] sýnið þið ekki bara samfélagslega ábyrgð heldur einnig samkennd og takið þátt í að gera samfélagið okkar öruggara og betra.“

Birtir lista yfir fyrirtæki

Konan birtir lista með færslunni, yfir þau fyrirtæki sem styrkja manninn. Þar skrifar hún:

„- GG sport, Ellingsen, Hreysti, Eyesland, Xioamii Ísland (Mii Ísland), Mbl.is með tíðum umfjöllunum um fyrirtækið hans.“

GG sport hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfarið, og slitið samstarfi við manninn. Þá skrifar fulltrúi markaðsmála hjá fyrirtækinu einnig athugasemd við færsluna. Þar segir meðal annars: „Við höfum tekið skýra afstöðu og slitið samstarfi við umræddan mann. Við munum aldrei styðja við ofbeldi á nokkurn hátt.“

Fréttablaðið hefur óstaðfestar heimildir fyrir því að fleiri fyrirtæki séu að bregðast við.

Uppfært 10:23:

Eyesland hefur tekið út allt efni tengt manninum. Xiaomi hefur slitið öllu samstarfi við manninn. Þá hafa Ellingsen einnig tekið afstöðu.