Embætti ríkisskattstjóra skoðar nú mál tengd áhrifavöldum en ekki hefur komið til sektarákvarðana í kjölfar skatteftirlits vegna áhrifavalda. Þetta kemur fram í svörum frá embættinu.

„Á undanförnum mánuðum hefur eftirliti og upplýsingagjöf verið beint sérstaklega að þeim aðilum sem koma við sögu svokallaðra áhrifavalda,“ segir í svörum ríkisskattstjóra. „Tilefni þessa er mjög aukin notkun samfélagsmiðla til stafrænnar markaðssetningar þar sem fyrirtæki eiga í samstarfi við einstaklinga, svokallaða áhrifavalda, um að koma vöru eða þjónustu á framfæri.“

Þá bendir embættið á að eitthvað sé um að almenningur sendi ríkisskattstjóra ábendingar varðandi áhrifavalda og markaðssetningu á samfélagsmiðlum áður en embættið staðfestir að mál tengd þeim séu til skoðunar hjá embættinu. „Mál þessu tengd eru í vinnslu hjá embættinu en ekki hefur komið til sektarákvarðana í kjölfar skatteftirlits vegna svokallaðra áhrifavalda.“