Liu Zhimming, yfirmaður Wuhan Wuchang sjúkrahússins í Kína, lést í gær af völdum COVID-19 veirunnar sem á uppruna sinn að rekja til Wuhan-borgar. Sjúkrahúsið var hannað eingöngu til þess að sinna sjúklingum sem sýkst hafa af veirunni.

COVID-19 veiran hefur dregið tæplega nítján hundruð manns til dauða og er Zhimming sjöundi heilbrigðisstarfsmaðurinn sem lætur lífið af hennar völdum.

Útbreiðsla veirunnar er mikil og hefur hún greinst víðs vegar um heim en í gær var fyrsti dagurinn þar sem ný tilfelli hennar voru færri en tvö þúsund í Kína síðan í janúar, í gær greindust þar 1.886 ný tilfelli.

Á heimsvísu hafa rúmlega 72 þúsund manns smitast af veirunni og áhrifa hennar gætir víða. Veiran hefur greinst í 26 löndum fyrir utan Kína, þar með talið í Svíþjóð, Finnlandi og í Bretlandi.

Í þessum 26 löndum hafa um 830 manns smitast og fimm hafa látið lífið af völdum veirunnar.

Yfir tvö þúsund ráðstefnum og iðnaðarsýningum hefur verið frestað í Kína vegna hafta á ferðalög til að minnka útbreiðslu veirunnar og eru áhrifin sögð teljast í milljörðum Bandaríkjadollara.

Tæknirisinn Apple hefur gefið það út að fyrirtækið sjái ekki fram á að ná ársfjórðungsmarkmiði sínu í mars vegna hægrar framleiðslu á iPhone og minnkandi eftirspurnar frá Kína. Í kjölfarið féllu hlutabréf í asískum fyrirtækjum í kauphöllinni á Wall Street.

Forseti Suður-Kóreu sagði efnahag landsins hafa tekið dýfu í kjölfar veirunnar. Eftirspurn eftir suðurkóreskum vörum hafi minnkað á heimsvísu.

Eggja- og fuglakjötsframleiðsla hefur dregist saman í Kína og sama má segja um útflutning á málmi, en lönd víðs vegar hafa hætt að taka við flutningaskipum frá Kína.

Fjöldi flugfélaga hefur tímabundið hætt við flug til Kína og fjölda íþróttaviðburða og mannfagnaða hefur verið frestað víða í Asíu.

Tugir manna víða um heim hafa verið settir í sóttkví og einangrun til að reyna að hamla útbreiðslu COVID-19 og voru til að mynda 300 Bandaríkjamenn fluttir með flugi til Bandaríkjanna í gær eftir að hafa verið haldið í sóttkví á skemmtiferðaskipinu Diamond Princess í tvær vikur. Fjórtán þeirra voru greindir með veiruna.

Þá var rússneskri konu gert að snúa til baka í einangrun eftir að hafa flúið af sjúkrahúsi í Sankti Pétursborg þar sem hún hafði verið í einangrun. Grunur lék á að konan væri smituð af veirunni eftir ferð til Kína.

Veiran hefur ekki greinst hér á landi en samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup óttast þriðjungur þjóðarinnar að hún berist til landsins. Sérstakri gámaeiningu hefur verið komið upp við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi en þar verður hægt að taka á móti og skoða sjúklinga sem grunur leikur á að séu smitaðir af veirunni.