„Það liggur fyrir að stytting vinnuvikunnar verður kostnaðarsamari hjá hinu opinbera en á almennum vinnumarkaði,“ segir Hannes G. Sigurðsson, ráðgjafi stjórnar og framkvæmdastjórnar Samtaka atvinnulífsins.

Stytting vinnuvikunnar á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera hefur hækkað launavísitölu Hagstofu Íslands um 1,36 prósent frá janúar 2020. Hækkun launavísitölu opinberra starfsmanna er meiri, eða um 1,67 prósent í samanburði við 1,22 prósenta hækkun launavísitölu almenna vinnumarkaðarins, vegna vinnutímastyttingarinnar. Áhrif vinnutímastyttingar hjá hinu opinbera eiga eftir að koma betur fram og munu þau líklega auka enn muninn milli opinbera og almenna markaðarins.

Þá hefur Hagstofan enn sem komið er einungis lagt bráðabirgðamat á áhrif styttingar vinnutíma vaktavinnufólks hjá hinu opinbera, sem tók gildi í maí. Bráðabirgðamatið er að styttingin hækki launavísitölu opinberra starfsmanna um 0,3 prósent en hækkunin verður líklega meiri þegar upp er staðið, að sögn Hannesar.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, segir markmiðið með styttingu vinnuvikunnar göfugt en of snemmt sé að dæma um endanlegan árangur breytingarinnar.

„Við fyrstu sýn virðist þetta svokallaða mönnunargat sem nú er talað um, einfaldlega verða leyst með hærri launakostnaði, annaðhvort vegna hærri launa þeirra sem taka á sig vinnu sem nemur styttingunni, eða vegna þess að ráða þarf fleiri til að fylla upp í þær stundir sem vantar,“ segir Svanhildur.

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hefur gefið út að áætlaður kostnaður við styttingu á vinnuviku vaktavinnufólks hjá ríkinu sé um 4,2 milljarðar króna á ársgrundvelli.

„Ef útfærslan mun leiða til mun meiri kostnaðar fyrir ríkið heldur en að var stefnt, þá eru í sjálfu sér forsendurnar sjálfar brostnar og það mun kalla á einhvers konar breytingu þegar þar að kemur,“ sagði Bjarni Benediktsson á Alþingi í lok apríl.