Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna hefur nú aftur skilgreint Ísland sem rautt þegar kemur að stöðunni hvað varðar Covid-19. Samkvæmt því er ferðalöngum ráðlagt frá því að heimsækja Ísland. Bandaríkjamenn voru fjölmennasti hópur ferðamanna til Íslands í október en óvissa ríkir nú um hvaða áhrif þessi ákvörðun Bandaríkjamanna mun hafa.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að það sé erfitt að segja til um nákvæm áhrif akkúrat núna. „Það hefur alltaf áhrif þegar þessi tölfræðiviðmið breytast hvort sem það er í Bandaríkjunum eða Evrópu. Þegar það eru gefnar út viðvaranir þá fylgist fólk almennt með þessu,“ segir Jóhannes.

Hann býst þó við að áhrifin verði svipuð og síðast þegar Ísland var rautt en þá var meira um að nýbókunum fækkaði fremur en að fólk sem átti þegar bókaða ferð til Íslands afbókaði. „Við erum alltaf að vinna með þann hóp ferðamanna sem er tilbúinn að ferðast þrátt fyrir ástandið í heiminum. Hann stækkar og minnkar eftir því hvernig ástandið er heima fyrir og á áfangastað,“ segir Jóhannes.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, tekur í sama streng og segir of snemmt að segja til um áhrifin núna en að það muni koma í ljós á næstu vikum.