Bóluefnastríðið hefur og er að breyta valdahlutföllum á hinu alþjóðlega pólitíska sviði. Á meðan lýðræðisþjóðir Vesturlanda karpa og bítast um hverja sprautu eru valdboðsríkin í austri, Kína og Rússland, að styrkja sig gagnvart ríkjum Asíu, Afríku og Rómönsku-Ameríku.

„Þetta eru gríðarlegir landvinningar,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst.

Kínverjar hafa flutt út jafn mikið af bóluefni og þeir hafa notað sjálfir og Rússar hafa náð samningum við 60 ríki um kaup á Spútnik V, til dæmis Argentínu og Pakistan.

„Kína hefur tekið gríðarlegt stökk fram á við til heimsáhrifa í þessum faraldri. Í Asíu og Afríku eru ríki að leita til Kína til heimsforystu en ekki Bandaríkjanna eins og áður var,“ segir Eiríkur.

Að sögn Eiríks er helsta ástæðan sú að Vesturlönd hafi öll litið inn á við í stað þess að styrkja bönd sín á milli.

„Vesturlönd eru svo upptekin af því að bólusetja eigin þegna að þau gleyma að líta til stöðu sinnar í alþjóðakerfinu,“ segir Eiríkur.

Í Bandaríkjunum hefur bóluefni ekki verið flutt út og því engin stefnubreyting hvað það varðar í tíð Joes Biden frá forveranum Donald Trump, Ameríka kemur fyrst.

SAXoPicture-09E9D550-428707493.jpg

Túnis er meðal þeirra fjölmörgu ríkja sem nú þegar samið hafa við Kínverja um kaup á bóluefni.

Þessi sókn alræðisríkja kemur ofan á veikingu lýðræðisþjóðfélaga innan frá í faraldrinum.

Að sögn Eiríks er faraldurinn, rétt eins og aðrar krísur, frjór jarðvegur fyrir popúlista og ýmiss konar loddara að komast til áhrifa. Samkvæmt rannsóknum hafa viðbrögðin við faraldrinum árið 2020, þar sem grafið hefur verið undan mannréttindum og frelsi fólks, leitt til þess að afturhvarf hefur verið í lýðræði á heimsvísu.

Sem dæmi um þetta má nefna Ungverjaland þar sem forsetanum Viktor Orban var í raun falið einræðisvald strax í apríl. „Það er leitun að tímabili þar sem jafn hratt hefur fjarað undan lýðræði,“ segir Eiríkur.

Í faraldrinum og ekki síst bólu­efna­stríðinu hefur hrikt í stoðum Evrópusambandsins eins og öllu alþjóðastarfi, til dæmis Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Fögur fyrirheit um jafnar bólusetningar til fátækra ríkja í formi COVAX-samstarfsins virka nú sem hjómið eitt.

Eiríkur segir að þrátt fyrir kergju ESB-ríkja vegna hægagangs í bólusetningum séu þó ríki þar innan sem geti þakkað fyrir að vera í samstarfinu. Í öðrum ríkjum á borð við Nýja-Sjálandi og Ástralíu séu bólusetningar mun skemur á veg komnar.

„Evrópusambandinu hefur verið spáð dauða í öllum krísum, svo sem fjármálakrísunni 2008, evrukrísunni sem fylgdi í kjölfarið og flóttamannakrísunni 2015,“ segir Eiríkur. „Það er í uppbyggingarfasanum sem ESB og aðrar alþjóðastofnanir sanna sig.“

Kergjan kemur augljósast fram í deilum sambandsins við Bretland, sem hefur heldur ekki flutt út bóluefni AstraZeneca. Þetta kemur á sérstaklega viðkvæmum tíma en í gær lauk aðlögunartímabili viðskiptasamningsins eftir útgöngu Bretlands úr sambandinu.

„Það eru skarar Breta í Evrópusambandsríkjum, til dæmis á Spáni, sem ekki hafa gengið frá sínum dvalarréttindum og verða orðnir ólöglegir í dag,“ segir Eiríkur. „Það er hægt að senda þá heim.“

Samkvæmt Eiríki hefur bóluefnadeilan haft töluverð áhrif á samskipti ESB og Bretlands. „Það eru miklir skjálftar en óvíst hvort það gjósi,“ segir hann.

Stærsta breytan er að sögn Eiríks viðskiptasamningurinn sem undirritaður var í desember, en er þó hálfkaraður. Enn á eftir að semja um stóra hluti svo sem fjármálaviðskipti.

Að mati Eiríks getur þetta enn farið úr skorðum og þó að Bretum hafi gengið mun betur í bólusetningum skiptir þá meira máli að klára samningana en ESB.