Fjarfundur kvenleiðtoga um áhrif COVID-19 á jafnréttismál og stöðu kvenna fór fram í gær. Fundurinn var skipulagður af UN Women og Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD). Á þriðja tug kvenna tók þátt í fundunum, þar á meðal Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Konurnar sem sátu fundinn starfa allar á vettvangi ríkisstjórna, alþjóðastofnana og frjálsra félagasamtaka.

Allar voru þær sammála um nauðsyn þess að hvetja ríkisstjórnir og aðra til þess að huga að jafnréttissjónarmiðum í aðgerðum og ákvörðunum í tengslum við samfélags- og efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins.

„Það skiptir miklu máli að við séum með kynjasjónarmið að leiðarljósi í viðbrögðum okkar við Covid 19-faraldrinum og tryggjum að þessi kreppa valdi ekki bakslagi í kynjajafnréttismálum. Þess vegna skiptir máli að standa vörð um rétt allra til heilbrigðisþjónustu og berjast með öllum leiðum gegn kynbundnu ofbeldi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra en hún var einn af frummælendum fundarins.

Hún sagði að faraldurinn leiði í ljós að ekki aðeins eru það konur sem eru í meirihluta þeirra sem starfa í heilbrigðiskerfum heimsins heldur eru þær einnig líklegri til að sinna ólaunaðri umönnun veikra ættingja.

„Hér á Íslandi hefur faraldurinn sýnt okkur að við eigum sterkt umhyggjuhagkerfi og það er mikilvægt að standa vörð um það,“ bætti hún við.

Í ár eru 25 ár liðin frá fjórðu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna sem haldin var í Peking árið 1995. Á ráðstefnunni var Pekingáætlunin samþykkt, sem m.a. byggist á ákvæðum um afnám allrar mismununar gegn konum.

Ákveðið var á fundinum að minnast áfangans í sumar en flest öllum fundum og ráðstefnum vegna afmælisins hefur verið frestað til ársins 2021.