Í síðustu viku funduðu stjórnendur Play air með starfsmönnum félagsins og var meðal annars rædd sú tillaga að áhafnameðlimir tækju á sig 50 prósent lækkun í starfshlutfalli gegn fastráðningu í vetur. Þetta kemur fram á vef MBL.

Að sögn Birgis Jónssonar, forstjóra Play air hafi hugmyndin ekki komið frá stjórnendum. „Ég var nú reyndar ekki á fundinum sjálfur en það er mikilvægt að árétta að þessi hugmynd kemur ekki frá stjórninni heldur vaknar hún hjá hópnum,“ segir Birgir.

Heimilidir Morgunblaðsins segir að hljóðið hafi verið þungt í flugmönnum eftir fundinn.

Birgir áréttar að enginn sé neyddur til minnkaðs starfshlutfall heldur er verið að reyna að tryggja fleiri starfsmönnum fastráðningu í stað atvinnuleysis.

„Í stað þess að þeir sem eru bara með ráðningarsamning út sumarið myndu detta út í haust og koma svo kannski aftur inn í vor var sú hugmynd lögð fram að þeir starfsmenn sem gætu og vildu, tækju á sig lækkun á starfshlutfalli,“ segir Birgir.

Þá segir hann, „Allt sem við erum að gera núna er bara upphitun fyrir næsta vor og erum við að þjálfa áhöfnina fyrir Bandaríkin. Fólk vissi það alveg þegar það byrjaði hjá okkur í sumar að við þurfum að vera fleiri á næstu mánuðum en flugáætlunin gerir ráð fyrir eins og hún er núna.“

Hjá félaginu starfa nú 26 flugmenn í fullu starfi og eru þeir allir fastráðnir. Flugliðar eru samtals 52 í fullu starfi og eru 16 af þeim fastráðnir.