Áhöfn TF-SIF, flug­vél Land­helgis­gæslunnar, stuðlaði að björgun rúmlega 1.300 flóttamanna á meðan þau sinntu eftirliti á vegum Landa­mæra­stofnunar Evrópu, Fron­tex, síðustu mánuði. Í til­kynningu frá Land­helgis­gæslunni kemur fram að á­höfn flug­vélarinnar hafi á þeim þremur mánuðum sem þau sinntu eftir­liti stuðlað að björgun rúm­lega 1.300 flótta­manna á Mið­jarðar­hafi. Vélin er samkvæmt tilkynningu nú komin aftur til Íslands.

Hún fór alls í 42 flug á meðan verk­efninu stóð. Vélinni var flogið til Malaga á Spáni í lok júlí­mánaðar og kemur fram í til­kynningunni að á­hafnir Land­helgis­gæslunnar hafi skipst á að sinna eftir­liti við Mið­jarðar­hafið.

Í byrjun ágúst­mánaðar urðu stýri­menn vélarinnar varir við meinta smyglara sem voru með alls 66 flótta­menn um borð um miðja nótt. Fólkinu hafði verið komið fyrir í „hrip­lekum gúmmí­bát“. Að lokum endaði hluti hópsins í sjónum en sem betur fer kom á­höfn flug­vélarinnar auga á fólkið og gerði spænskum yfir­völdum við­vart. Þyrla var send á vett­vang og öllum bjargað úr háska.

„Ef á­höfnin á TF-SIF hefði ekki komið auga á fólkið er ljóst að illa hefði geta farið.“

Auk þessa leiddi eftir­litið einnig til þess að mikið magn fíkni­efna hafi verið gert upp­tækt. Nú um mánaða­mótin hefst upp­færsla á eftir­lits­búnaði flug­vélarinnar en vonir eru bundnar við að henni verði lokið um eða eftir ára­mótin.

Í mynd­skeiðinu hér að neðan má sjá gúmmí­bátinn sem stýri­menn urðu varir við í ágúst og síðar hvernig flótta­mönnunum var komið til bjargar.