Spænska lög­reglan hand­tók fjóra og gerði 963 kíló af hassi upp­tæk á dögunum. Var það í sam­vinnu við Land­helgis­gæslu Ís­lands en á­höfn TF-SIF, eftir­lits­flug­vélar gæslunnar, kom auga á hrað­bát með tor­kenni­legum varningi við landa­mæra­eftir­lit á vestan­verðu Mið­jarðar­hafi.

Fram kemur í til­kynningu frá gæslunni að höfu­stöðvum spn­æsku lög­reglunnar í Madríd hafi þegar verið gert við­vart. Á meðan fylgdi TF-SIF bátnum eftir inn á Gí­braltar­sund í rúm­lega tvo tíma.

Þar mætti spænska lög­reglan á hrað­bát og hand­tók fjóra smyglara og gerði tæpt tonn af hassi upp­tækt.

Sam­kvæmt frétta­til­kynningu spænsku lög­reglunnar voru smyglararnir frá Marokkó, Belgíu og Frakk­landi.

Á­höfnin á TF-SIF hefur frá júní­mánuði haft að­setur á Malaga á Spáni og sinnt landa­mæra­eftir­liti á Mið­jarðar­hafi á Fron­tex.

Ferðin hefur verið var árangurs­rík, að því er fram kemur í til­kynningu gæslunnar.

Á­höfnin hefur tekið þátt í 41 verk­efni og stuðlað að björgun 78 flótta­manna og komið upp um fjöl­marga smyglara sem reynt hafa að flytja fíkni­efni til megin­lands Evrópu.

TF-SIF lagði af stað til Ís­lands frá Spáni í dag og er væntan­leg til landsins síðar í vikunni.