„Það var oft nóg að gera hjá okkur vegna útkalla í fyrra en nú horfir í að miklu fleiri heimsæki eldstöðvarnar,“ sagði einn áhafnarmeðlimanna.

Aðeins 13 klukkustundir liðu frá upphafi eldgossins í fyrradag þangað til fyrsta útkall barst vegna slasaðs ferðamanns. Áhafnarmeðlimirnir bentu á að í fyrra var Covid og sárafáir erlendir ferðamenn en samt allmörg óhöpp og veikindatilvik tengd jarðeldunum. Nú er Ísland fullt af erlendum ferðamönnum, margir Íslendingar enn í sumarfríi og ferðavilji í hæstu hæðum. Því gæti orðið sprenging í mannfjölda við gosstöðvarnar að því gefnu að umferð verði ekki takmörkuð eða bönnuð.

Ýmsar hættur geta steðjað að fólki sem safnast saman við eldstöðvarnar. Að sögn björgunarsveitarfólks sem sinnti eftirliti nálægt gosstöðvunum í gær er gönguleiðin mun lengri en í fyrra og torfærari. Þeir sem sæki eldstöðvarnar heim þurfi að gæta sín á gasmengun. Þá sé alltaf einhver hætta á bruna ef fólk fer óvarlega við glóandi hraun. Eru þá ónefndar óvæntar breytingar sem gætu orðið á gosinu, fyrirvaralaust.

Almannavarnir brýna fyrir ferðalöngum að skilja yngri börn eftir heima, huga vel að vistum, klæðnaði og skóbúnaði og fara varlega. Þrátt fyrir amstrið og viðsjána sem fylgir ferðalögum að eldgosinu, sögðu þeir ferðamenn sem Fréttablaðið hitti við eldstöðvarnar í gær, að aðstæður til að njóta sjónarspilsins væru einhverjar þær bestu í Íslandssögunni.

Fannar Freyr Jónsson var í ferð númer 48 að jarðeldum nálægt Fagradalsfjalli síðan eldarnir hófust í fyrra. Hann sagði aðstæður „stórfenglegar“ og sumpart þær bestu frá upphafi til að njóta dýrðarinnar. Mjög gott veður var þá og vindátt hagstæð.

Vísindafólk frá Háskóla Íslands sem vann að uppsetningu gasmæla sagði að fólk yrði að fara varlega ef lygndi.