Formenn stjórnarflokkanna funduðu í Ráðherrabústaðnum í morgun. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir samtal þeirra ennþá á óformlegum nótum.

„Við ætlum að taka nokkra daga af óformlegu samtali og gerum það áfram í dag,“ segir Sigurður Ingi sem gekk síðastur formannanna af fundi þeirra í Ráðherrabústaðnum rétt upp úr 11 í morgun.

Hann segir að þótt það sé vandasamt að mynda ríkisstjórn þekki þau hvert annað og helstu áherslur flokkanna þriggja.

„Okkur tókst mjög vel fyrir fjórum árum að búa til góða blöndu með áherslum allra flokkanna,“ segir hann og bætir við um áherslur Framsóknarflokksins í viðræðunum:

„Þær liggja í augum uppi. Við lögðum í þessar kosningar með ákveðnar áherslur eins og málefni aldraðra, öryrkja og heilbrigðiskerfisins.“

„Við erum ennþá í óformlegu samtali, tölum um allt og ekkert en ekkert sem liggur fyrir á borðinu.“

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, mætti glaðbeittur til fyrsta fundar nýs þingflokks Framsóknarflokksins í Alþingishúsinu í gær.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Sigurður Ingi nefnir sérstaklega þá aðferðafræði sem Ásmundur Einar Daðason vann eftir í kerfisbreytingum í málefnum barna.

Flokkurinn vilji sömuleiðis leggja áherslu á verðmætasköpun til að tryggja að allir geti verið virkir samfélaginu, ekki síst íbúar landsbyggðarinnar.

„Við höfum lagt áherslu á að við erum 370 þúsund í þessu landi og okkur fannst takast best í þessari kosningabaráttu að allt sem við lögðum áherslu á gilti um allt land.“

Aðspurður um skiptingu ráðuneyta segir Sigurður Ingi: „Við erum ennþá í óformlegu samtali, tölum um allt og ekkert en ekkert sem liggur fyrir á borðinu.“