Til stendur að bólusetja um 25 þúsund manns gegn COVID-19 í vikunni. Fjórtán þúsund manns fá bóluefni frá Pfizer, fjögur þúsund frá Moderna og þá fara 6.500 skammtar af bóluefni frá Janssen í dreifingu.

Nú er verið að bólusetja þá sem tilheyra forgangshópi sjö, það er fólk með undirliggjandi sjúkdóma svo sem sykursýki, offitu, háþrýsting og ónæmisbælingu.

Anna María Snorradóttir, verkefnastjóri sóttvarna hjá Embætti landlæknis, segir forgangshóp sjö telja tugi þúsunda einstaklinga.

„Í upphafi bólusetningar taldi þessi hópur um 60 þúsund manns, en hluti hans hefur þegar fengið bólusetningu af því þau eru heilbrigðisstarfsmenn eða komin á ákveðinn aldur til dæmis, svo það sorterast aðeins út,“ segir Anna María.

Heimilisfólk langveikra barna sem mega ekki fá bólusetningu tilheyrir einnig forgangshópi sjö. Anna María segir ástæðuna vera þá að ekkert þeirra bóluefna sem notað er hér á landi sé heimilt að gefa einstaklingum undir sextán ára aldri, „og eitthvað af þeim ekki fyrr en átján ára.“

Þá segist hún ekki hafa nákvæma tölu á fjölda þeirra sem tilheyri þessum hópi.Í þessari viku verður áherslan lögð á að bólusetja sem flesta í hópi sjö, því næst í röðinni er hópur átta en hann nær yfir starfsfólk leik-, grunn- og framhaldsskólum og tiltekið starfsfólk félags- og velferðarþjónustu.

Leikskólakennarar gætu fengið boð í vikunni

„Það hefur verið ákveðið að leikskólakennarar verði fyrstir í röðinni í hópi átta og þeir gætu mögulega fengið boð í þessari viku,“ segir Anna María.

Enn á eftir að útfæra hvernig gengið verður á hóp átta og hverjir innan skólakerfisins verði taldir innan þess hóps, til að mynda eru tónlistarskólar ekki taldir þar með og óvíst er með stöðu annarra starfsstétta svo sem námsráðgjafa og starfsfólk mötuneyta.

„Núna leggjum við áherslu á þá sem eru útsettastir fyrir því að verða alvarlega veikir,“ segir Anna María. Röðin í hópi sjö sé metin út frá áhættunni sem undirliggjandi sjúkdómar skapi. „Þeir sem eiga á hættu að veikjast alvarlega eða jafnvel bara ekki lifa af eru í hópi sjö og sérfræðingar tóku saman þann lista.“

Anna María segir skipulagningu við bólusetningar hérlendis hafa gengið afar vel og að hér sé þátttaka mun meiri en í mörgum öðrum löndum. „Það er glæsilegt og við erum mjög ánægð með hvað þetta gengur vel, þetta gengur eiginlega bara eins og smurð vél,“ segir hún.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í síðustu viku hannaði upplýsingatæknifyrirtækið Origo kerfi sem heldur utan um skipulagningu og boðun í bólusetningu. Anna María segir kerfið virka vel og að án þess hefði skipulag ekki gengið eins smurt fyrir sig.

„Flækjustigið getur verið mjög mikið í þessu og það er algjört púsluspil að koma þessu öllu saman. Ef við hefðum ekki haft þetta kerfi hefði þetta orðið allt öðruvísi.“