Vonast er til að innleiðing áhættumatskerfis lögreglunnar til að greina betur aðstæður í kringum kynferðisbrot fullorðinna gegn börnum hefjist sem fyrst.

Gert er ráð fyrir að prófunarfasi matsins hefjist strax hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á næstu dögum samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Greint var frá því í morgun að nú færi fram vinnustofa hjá lögreglunni undir handleiðslu kanadíska prófessorsins í réttarsálfræði, Stephen Hart, vegna innleiðingar áhættumatsins.

Skapa sameiginlegt tungumál

Vinnustofan er sérstaklega ætluð lögreglumönnum og ákærendum sem starfa við rannsóknir og saksókn kynferðisbrota en um 25 starfsmenn lögreglunnar munu sækja alla vinnustofuna í tvo daga. Fyrir hádegi í dag var svo samstarfsaðilum lögreglu boðið að taka þátt í almennri fræðslu til að skapa sameiginleg skilning og tungumál í áhættumiðlun og forvarnaraðgerðum.

Alls mættu um 60 manns á vinnustofuna í morgun frá félagsþjónustu, fangelsismálayfirvöldum, heilbrigðiskerfinu, barnavernd og þolendaþjónustusamtökum.

Greinir mikilvæga þætti í kynferðisbrotum

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni hefur Hart komið að þróun fjölda viðurkenndra og vel rannsakaðra áhættumatstækja sem notuð eru í dag um allan heim.

Áhættumatstækjunum er ætlað að meta áhættuþætti og verndandi þætti gerenda kynferðisbrota, aðstæður brota og þætti tengda þolendum mismunandi brota líkt og heimilisofbeldis, kynferðisofbeldis, eltihrella, svokallað heiðursofbeldi og ofbeldi almennt.

Hart var beðinn um að þróa sérhæft áhættumatstæki fyrir lögreglu til að greina betur mikilvæga þætti í kynferðisbrotum gegn börnum þannig að hægt sé að reyna koma í veg fyrir frekari brot gegn sama eða nýjum brotaþolum.

„Það var mikill fengur að Hart hafi tekið að sér þetta verkefni en hann hefur áður unnið með íslensku lögreglunni við innleiðingu á áhættumati í ofbeldi í nánum samböndum þar sem megin tilgangurinn er ekki bara spá fyrir um framtíðarhegðun heldur bera kennsl á möguleg tækifæri til að stöðva frekari brot,“ segir Sigríður Björk í samtali við Fréttablaðið.

Draga úr líkum á ítrekaðri hegðun

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er áhættumatið staðlað vinnublað sem mun hjálpa lögreglu að skoða hvert mál, ekki út frá ákvæðum hegningarlaga heldur út frá þáttum sem sýnt hefur verið fram á að með rannsóknum hafi fylgni með áframhaldandi brotahegðun.

Þannig geti lögreglan borið kennsl á þætti hjá geranda og í umhverfi hans sem hægt sé að grípa til aðgerða til að draga úr líkum á ítrekaðri hegðun.

Í því felist ekki að búið sé að ákveða sekt viðkomandi heldur sé tilgangurinn sá að ef tilkynning um brot er rétt, hvernig hægt sé að koma í veg fyrir frekari brot.