Konur komu mjög vel út úr skoðanakönnun sem haldin var meðal félaga í Samfylkingunni í Reykjavík í desember.

Aðeins einn karlmaður er í hópi þeirra fimm sem flestir vilja að taki forystusæti á listum Reykjavíkurkjördæmanna tveggja í kosningum til Alþingis í haust. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins, en uppstillingarnefnd vinnur nú að uppstillingu framboðslista fyrir Reykjavíkurkjördæmin tvö fyrir komandi kosningar.

Samkvæmt heimildum blaðsins er útlit fyrir að konur leiði bæði kjördæmin: Annars vegar þingkonan Helga Vala Helgadóttir og hins vegar annað hvort Kristrún Frostadóttir hagfræðingur eða þingkonan Rósa Björk Brynjólfsdóttir.

Einhver áhöld munu þó um hvort Rósa verði yfir höfuð á lista í Reykjavík, en áhugi mun vera fyrir því að fá hana í Suðvesturkjördæmi þar sem Guðmundur Andri Thorsson leiddi lista fyrir síðustu kosningar.

Jóhann Páll Jóhannsson, fyrrverandi blaðamaður á Stundinni, er eini karlmaðurinn sem mældist meðal efstu fimm í könnuninni. Hann er sagður vel tengdur í ungliðahreyfingu flokksins sem hefur látið mikið að sér kveða í flokksstarfinu að undanförnu, sem hefur haft fjölda nýskráninga í flokkinn í för með sér.

Samkvæmt heimildum blaðsins náðu ungliðarnir einnig þeim árangri að nýkjörinn formaður samtaka þeirra, Ragna Sigurðardóttir, var einnig meðal efstu fimm í könnuninni.

Af þessu er ljóst að þingmaðurinn Ágúst Ólafur Ágústsson hefur ekki átt upp á pallborð flokksfélaga sinna sem oddvitaefni í Reykjavík.