Ágúst Arnar Ágústsson, forstöðumaður trúfélags Zúista, hefur ákveðið að hætta sem forstöðumaður. Þetta kemur fram í tilkynningu. Ný stjórn hefur verið kjörin og hennar fyrsta verk er að leita að nýjum forstöðumanni.

„Ég hef ákveðið að hætta sem forstöðumaður og um leið stjórnarformaður Zuism. Þessi ákvörðun hefur legið lengi í loftinu eftir að hafa gegnt starfinu í fjögur ár,“ er haft eftir Ágústi. Verkefnin hafi verið mjög krefjandi, meðal annars að stýra fyrstu endurgreiðslu sóknargjalda á Íslandi og koma upp athöfnum á vegum félagsins. Hann segir að bestu minningar hans úr starfinu séu þær giftingar sem hann hafi framkvæmt. „Ég vil þakka öllum sem hafa staðið á bakvið félagið og er ég sannfærður að bæði ný stjórn og forstöðumaður muni gæta hagsmuna félagsmeðlima og stefnu félagsins.“

Mikill styr hefur staðið um félagið og Ágúst undanfarin ár. Félagið hefur fengið tugi milljóna í formi sóknargjalda úr ríkissjóði þrátt fyrir takmarkaða starfsemi og engar höfuðstöðvar. Fram hefur komið að milljónirnar gætu verið um 80 talsins.

Fjölmiðlum hefur gengið mjög illa að fá haldbærar upplýsingar um ráðstöfun peninganna en sá gluggi sem meðlimir hafa haft til að sækja um endurgreiðslur sóknargjalda hefur verið skammlífur og illa auglýstur. Ágúst hefur ekki viljað gefa upp hversu margir fengu sóknargjöldin endurgreidd, hversu há upphæðin var í heild eða hversu miklir peningar hafa setið eftir í félaginu.

Þá stóðu lengi yfir átök um yfirráð í félaginu. 

Ágúst hefur verið rannsakaður fyrir fjársvik en Kickstarter-söfnun hans var ásínum tíma lokað vegna þeirrar rannsóknar.

Uppfært: Athugasemd hefur borist frá Ágústi þar sem hann fullyrðir að Kickstarter-verkefnin hafi aldrei verið til rannsóknar. Mál bróður hans hafi fjallað um fjárfestingasjóð sem hafi ekkert með Kickstarter að gera. Ágúst hafi enga þátttöku haft í því máli.