Héraðs­dómur Reykja­víkur hefur dæmt ferða­þjónustu­fyrir­tæki á höfuð­borgar­svæðinu til að greiða fyrr­verandi fram­kvæmda­stjóra þess tæpar 4,9 milljónir króna vegna upp­sagnar.

Fram­kvæmda­stjórinn fyrr­verandi var ráðinn til starfa þann 1. júlí 2019 og voru um­samin laun ein milljón króna á mánuði, auk 80 þúsund króna öku­tækja­styrkjar á mánuði.

Ágreiningur vegna hlutabótaleiðar

Fyrir dómi kom fram að til á­greinings hafi komið um ára­mótin 2019 til 20120 þar sem fram­kvæmda­stjóranum þótti eig­andi fyrir­tækisins stjórna of miklu í starf­seminni. Viðraði fram­kvæmda­stjórinn þetta við stjórn fyrir­tækisins, að bera á­byrgð sem fram­kvæmda­stjóri án þess að hafa með raun­veru­lega stjórn að gera. Úr varð að við­komandi steig til hliðar sem fram­kvæmda­stjóri í lok febrúar 2020 en hélt á­fram störfum fyrir fyrir­tækið og þáði sömu laun og áður.

Í lok mars í fyrra kom aftur upp á­greiningur milli starfs­mannsins og eig­anda fyrir­tækisins um við­brögð í til­efni af kórónu­veirufar­aldrinum. Laut á­greiningurinn einkum að því hvort stuðst yrði við hluta­bóta­leiðina og þá hvort hægt væri að beita henni sam­hliða því að starfs­mönnum væri sagt upp.

Sagði eiganda hafa reiðst

Fyrir liggur að fram­kvæmda­stjórinn fyrr­verandi vildi ekki fara þá leið sem lögð var til af hálfu eig­anda fyrir­tækisins og varð úr að starfs­manninum var sagt upp störfum með upp­sagnar­bréfi 31. mars 2020. Í bréfinu var ó­vissa vegna CO­VID-19 til­tekin sem á­stæða upp­sagnar. Gengið var út frá því að starfs­maðurinn ynni út upp­sagnar­frestinn en þann 24. apríl 2020 var honum vikið úr starfi.

Starfs­maðurinn fyrr­verandi sagði fyrir dómi að upp­sagnar­bréfið hefði í engu tengst því að hann hefði hætt sem fram­kvæmda­stjóri. „Nokkrum dögum síðar hafi stefnandi svarað fyrir­spurnum við­skipta­vina um endur­greiðslu vegna ferða sem hætt hafði verið við á þá leið að eig­andi stefna myndi ganga frá slíkum málum. Við þetta hafi hann reiðst veru­lega og vikið stefnanda úr starfi,“ eins og segir í dómi héraðs­dóms.

Þar sem starfs­maðurinn fékk ekki laun sín greidd þann 1. maí í fyrra leitaði hann til VR og óskaði eftir að­stoð við inn­heimtu launa. Í bréfi sem VR sendi fyrir­tækinu kom meðal annars fram að stefnandi ætti rétt á þriggja mánaða upp­sagnar­fresti. Þar sem ekki var brugðist við erindinu var fyrir­tækinu stefnt í fyrra­sumar.

Starfs­maðurinn fyrr­verandi krafðist þess að fá greidd van­goldin laun fyrir apríl, maí og júní 2020 auk or­lofs, or­lofs­upp­bótar og desem­ber­upp­bótar.

Ekki brot á starfsskyldum

Lög­maður ferða­þjónustu­fyrir­tækisins bar við fyrir dómi að fram­kvæmda­stjórinn fyrr­verandi hefði ekki sinnt starfs- eða vinnu­skyldum fram­kvæmda­stjóra frá og með 1. apríl 2020 og tak­mörkuðum frá 29. febrúar sama ár. Þá hafi starfs­maðurinn sjálfur á­kveðið að efna ekki ráðningar­samninginn frá og með 1. mars 2020 og ætti því ekki rétt til launa í upp­sagnar­fresti, hvað þá launa byggðum á ráðningar­samningi sem hann hafi ekki efnt.

Í niður­stöðu dómsins kemur fram að for­svars­menn fyrir­tækisins hafi ekki lagt neitt fram í málinu sem renni stoðum undir það að starfs­maðurinn fyrr­verandi hafi brotið gegn starfs­skyldum sínum. Þá var lagt til grund­vallar að eig­andi fyrir­tækisins hafi, með því að víkja starfs­manninum frá starfs­stöðinni í lok apríl 2020, hafnað vinnu­fram­lagi hans á miðjum upp­sagnar­fresti. „Stefnandi á því rétt til launa á upp­sagnar­fresti,“ segir í niður­stöðu dómsins.

Ferða­þjónustu­fyrir­tækið var því dæmt til að greiða fram­kvæmda­stjóranum fyrr­verandi tæpar 4,9 milljónir króna í bætur og 500 þúsund krónur í máls­kostnað.