Ágreiningur virðist vera um trúverðugleika lögreglumanns í framburði hans fyrir Héraðsdómi Austurlands í skotárásarmálinu á Egilsstöðum í fyrra.

Aðalmeðferð í málinu fer nú fram í Landsrétti en hún hófst í gær. Ákæruvaldið, Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari, sem sækir málið hóf málflutning í morgun.

Hann lagði áherslu á þau atriði sem sakborningurinn, Árnmar Jóhannes Guðmundsson, neitar sök á í málinu, meðal annars tveimur tilraunum til manndráps.

Fer fram á sýknu að hluta

Líkt og fyrr hefur verið greint frá var Árnmar dæmdur í átta ára fangelsi í apríl fyrir skotárárásina á Egilsstöðum sem átti sér stað í lok ágúst í fyrra. Hann undi ekki dómi héraðsdóms og áfrýjaði til Landsréttar. Árnmar fer meðal annars fram á sýknu í tilraunum til manndráps.

Árnmar er sjálfur viðstaddur í Landsrétti í dag ásamt fjölskyldu sinni en hann afplánar nú dóm sinn í fangelsinu á Kvíabryggju.

Á meðan málflutningur Helga Magnúsar fór fram mátti heyra skothvell inni í dómssal sem barst að utan. Dómari tók augnablik til að útskýra fyrir gestum að sérsveitin væri við æfingar fyrir utan Landsrétt.

Átta til tíu ár í fangelsi

Ákæruvaldið gerir sömu kröfur og áður og Árnmar greiði allan sakarkostnað á báðum dómstigum, rúmar tíu milljónir króna.

Þá var einnig farið yfir miskabótakröfur og þær ítrekaðar og hækkaðar. Þá sagði Helgi Magnús í málflutningi sínum að átta ára fangelsisvist væri ekki fjarri lagi í þessu máli. Helgi Magnús sagði átta til tíu ár í fangelsi eðlilega refsingu.

Þá hafi áverkarnir sem Árnmar hlaut sjálfur þegar lögregla skaut á hann, verið að einhverju marki, málagjöld fyrir verknaðinn. Dómari spurði Helga Magnús hvort ákæruvaldið tæki undir iðrun Árnmars, frá því væri greint í greinargerð verjanda hans, og tók hann undir það.

Þáverandi sambýliskona hans hafi lýst honum sem góðum manni. Hann hafi verið góður við hana og börnin á meðan þau voru saman og að drengirnir hafi litið upp til hans. Helgi Magnús sagði að mögulega hefði Árnmar tvær manneskjur að geyma. Þetta kvöld hafi eitthvað gerst.

Hagsmunir lögreglumannsins

Ágreiningur virðist vera um einhver atriði í framburði lögreglumanns sem mætti á vettvang þetta kvöld. Ákæruvaldið telur framburð lögreglu trúverðugan og að hann hafi verið skýr.

Dómari spurði ákæruvald hvort lögreglumaðurinn hafi einhverja hagsmuni af því að segja ekki satt og rétt frá málsatvikum fyrir dómi. Ákæruvaldið sagðist telja að svo væri ekki.

Lögreglumaðurinn hafi haldið sig við það sem hann trúir að sé satt og að ekki sé ástæða til að trúa öðru.

Dómarar og ákæruvald veltu því á milli sín um stutta stund hvort að lögreglumaðurinn hefði einhverra hagsmuna að gæta með að greina ekki satt og rétt frá málsatvikum. Ákæruvaldið sagði mögulegt að hann hafi misst út einhverja parta.

„Ef það væri ásetningur til að segja ósátt þá held ég að hann hefði valið sér einhverja skynsamlegri leið,“ sagði Helgi Magnús meðal annars.