Á mánudag féllst Endurupptökudómur á beiðni Ívars Guðjónssonar, fyrrverandi forstöðumanns eigin fjárfestinga Landsbankans, um endurupptöku á hans hlut að markaðsmisnotkunarmáli bankans fyrir Hæstarétti.

Togstreitu milli Hæstaréttar og Endurupptökudóms sem þar kemur fram má rekja til þess að í desember á síðasta ári heimilaði Endurupptökudómur endurupptöku á máli Styrmis Þórs Bragasonar, fyrrverandi forstjóra MP banka, og var málið flutt að nýju fyrir Hæstarétti.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu fyrir um fjórum vikum síðan að Endurupptökudómur hefði átt að nýta tiltekna heimild í lögum um meðferð sakamála og vísa málinu til Landsréttar í stað Hæstaréttar, af því að í Landsrétti mætti taka skýrslur af aðilum og vitnum. Málinu var vísað frá Hæstarétti þar sem ekki var hægt að fá munnlega sönnunarfærslu til að geta dæmt í málinu, þar sem hún gat ekki farið fram fyrir réttinum á grundvelli núgildandi laga.

Á mánudag kom sama staða aftur upp í máli Ívars Guðjónssonar en Endurupptökudómur vísaði því máli aftur til Hæstaréttar í stað Landsréttar. Endurupptökudómur túlkar lögin á þann hátt að ofangreint ákvæði eigi aðeins við mál sem hafa áður sætt meðferð hjá Landsrétti. Mál bæði Ívars og Styrmis voru rekin áður en Landsréttur kom til sögunnar.

Víðir Smári Petersen, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, segir það áhugavert að hér séu tveir hliðsettir dómstólar sem hafi hvor sína túlkun á tilteknu lagaákvæði um endurupptöku sakamála.

„Það er alveg ljóst að Hæstiréttur er bundinn af ákvörðunum Endurupptökudóms um endurupptöku málsins, en hann hefur sjálfstæða skoðun á beitingu þessarar heimildar. Endurupptökudómur lítur aftur á móti svo á að hann sé ekki bundinn af túlkun Hæstaréttar, að túlkun Hæstaréttar á þessu lagaákvæði sé ekki fordæmisgefandi fyrir sig. Þetta eru tveir turnar að tala saman og við höfum aldrei lent í þessu áður að tveir hliðsettir dómstólar á æðsta stigi séu ósammála um svona lagaatriði,“ segir Víðir.

Víðir Smári Petersen dósent við lagadeild HÍ

Að sögn Víðis er það ekki óheilbrigt eða óeðlilegt í sjálfu sér að dómstólar séu ósammála, og nefnir dæmi um að slíkt þekkist til dæmis í Þýskalandi. Nú sé hér komin upp ákveðin pattstaða og það sé löggjafans að leysa úr ágreiningnum.

„Hér eru tveir dómstólar sem eru ósammála og það er í raun enginn sem getur leyst úr þeim ágreiningi nema löggjafinn. Það er brýnt að mínu mati að löggjafinn ráði bót á þessu, því það er ákveðin pattstaða eins og staðan er núna, þar sem Endurupptökudómur telur að sér sé ekki heimilt að vísa máli til Landsréttar, nema að það hafi áður verið dæmt fyrir Landsrétti. Hæstiréttur telur sig á móti við þessar aðstæður ekki geta framkvæmt munnlega sönnunarfærslu. Af þessum sökum fer engin endurskoðun fram og gömlu héraðsdómarnir eru látnir standa,“ segir Víðir.