Innlent

Á­góði sýninga á Lof mér að falla til Frú Ragn­heiðar

Hjá Frú Ragn­heiði er hjúkrunar­mót­taka auk þess sem ein­stak­lingar sem sprauta vímu­efnum í æð er boðið að koma og sækja hreinar nálar, sprautur og nála­box. Um 3 þúsund heim­sóknir eru í bílinn ár­lega. Í kvöld verða þrjár styrktar­sýningar á Lof mér að falla til styrktar verk­efninu.

Þrjár styrktarsýningar verða í kvöld á kvikmyndinni Lof mér að falla. Allur ágóði mun renna til verkefnisins Frú Ragnheiður.

Í kvöld verður haldin sérstök styrktarsýning í bæði Háskólabíó og Borgarbíói Akureyri á kvikmyndinni Lof mér að falla. Allur ágóði af sýningunni mun renna til skaðaminnkunarverkefnisins Frú Ragnheiðar.

Frú Ragnheiður – skaðaminnkun  er verkefni sem hefur það markmið að ná til jaðarsetta hópa í samfélaginu sem nota vímuefni um æð. Frú Ragnheiður er sérinnréttaður bíll sem er ekið um götur höfuðborgarsvæðisins á kvöldin. Þar er starfrækt hjúkrunarmóttaka þar sem fólk getur fengið aðstoð við aðhlynningu sára, umbúðaskipti, blóðþrýstingsmælingu, saumatöku og almenna heilsufarsráðgjöf. Einnig er í boði nálaskiptaþjónustu, þar sem einstaklingar sem sprauta vímuefnum í æð, geta komið og sótt sér hreinar nálar, sprautur, nálabox og annað sem þarf til að draga úr líkum á smiti. 

3.000 heimsóknir á ári

Svala Jóhannesdóttir verkefnastýra Frú Ragnheiðar segir að í fyrra hafi í heild verið um þrjú þúsund heimsóknir bílinn frá um 400 einstaklingum. Hún segir að þau greini aukningu á bæði einstaklingum sem til þeirra koma og fjölda heimsókna á þessu ári. Hún segir að þau greini einnig ýmsar breytingar á hópnum sem til þeirra leitar. 

„Við sjáum að helsta breytingin er sú að þau sem eru háð morfínskyldum lyfjum og nota þau í æð eru verr sett en áður. Það er vegna þess að morfínið á ólöglegum markaði hefur hækkað svo gríðarlega,“ segir Svala í samtali við Fréttablaðið í dag.

Svala segir að engin ein ástæða ráði hækkuninni en þau sjái greinilega að sá hópur sé í verri stöðu nú en hann hefur verið fyrri ár.

„Það sem gerist þegar efnin hækka í verði, þá grípur fólk meira til örþrifaráða í að fjármagna efnin. Það er gert með kynlífsvinnu, innbrotum í bíla og þjófnuðum í verslunum og öðru,“ segir Svala

Aukin fjölefnanotkun og aukið heimilisleysi

Önnur breyting sem þau sjá í ár er aukning á fjölefnanotkun fólksins sem til þeirra koma.

„Það er mín tilfinning að hópurinn sem leitar til okkar noti allskonar efni. Morfínskyld lyf, allar tegundir af örvandi lyfjum og róandi lyfjum. Það er munurinn á þegar morfínskyldu lyfin hækkuðu svo mikið á markaði, þá fór sá hópur að nota meira af örvandi efnum með. Eins og amfetamín og rítalíni,“ segir Svala.

„Fólk sem er háð morfínskyldum lyfjum, þeirra primal vandi er morfín. Þau eru alltaf að reyna að fyrirbyggja það að vera veik, bæði andlega og líkamlega. Rannsóknir hafa sýnt að einstaklingar sem verða háðir morfínskyldum lyfjum eru oft með undirliggjandi áfallastreitu og nota morfínið til að deyfa einkennin og sársaukann. Þegar efnin hækka í verði þá þurfa þau að hafa miklu meira fyrir því og nota jafnvel aðeins minna. Þá detta þau í amfetamín og rítalín með,“ segir Svala.

Svala telur að önnur ástæða þess að staða hópsins sé verri í ár en áður sé aukið heimilisleysi.

„Það er mín tilfinning að mun fleiri séu heimilislausir innan hópsins og fleiri sem að sofi úti. Í bílakjöllurum, í hústökum eða reyni að halda sér „á vökunni“ svo þeim verði ekki kalt. Heimilisleysi er það versta sem samfélagið getur gert fólki. Það tekur allan stöðugleika úr lífi fólks og allt öryggi, einnig aukast öll neikvæð einkenni bæði líkamalegur vandi  og geðvandi ,“ segir Svala.  

Svala Jóhannesdóttir verkefnastýra Frú Ragnheiðar segir að þau greini aukningu í fjölda fólks og heimsóknum á þessu ári

Skortir fjármagn til að anna eftirspurn

Svala segir að þrátt fyrir styrki frá heilbrigðisráðuneyti, sveitarfélögum, landlæknisembættinu og ýmsum fyrirtækjum skorti þeim enn fjármagn til að anna eftirspurn.

Rauði krossinn greiðir enn um 40 til 50 prósent með verkefninu. Heilbrigðisráðuneytið hefur styrkt það um 6,5 milljónir tvö ár í röð, Reykjavíkurborg um 2,5 milljónir og svo hafa þau fengið styrk frá Hafnarfirði upp á hálfa milljón þrjú ár í röð. Hún segir að þótt þau hafi einungis fengið styrki frá Reykjavík og Hafnarfirði sinni þau fólki á öllu höfuðborgarsvæðinu.

„Við þjónustum allt höfuðborgarsvæðið. Við förum í öll sveitarfélög og öll hverfi. Að svo stöddu eru þó Reykjavíkurborg og Hafnarfjörður einu sveitarfélögin sem styrkja verkefnið. Svo höfum við þurfti að reiða okkur á framlög fyrirtækja og einstaklinga,“ segir Svala.

Hjúkrunarfræðingar og læknar sem sinna sjálfboðastarfi

Svala er eini launaði starfsmaðurinn. En hjá verkefninu starfa um 80 sjálfboðaliðar, sem eru að miklu leyti hjúkrunarfræðingar, og svo níu læknar sem vinna bakvakt. Á hverri vakt bílsins eru þrír sjálfboðaliðar og einn læknir á bakvakt.

Svala segir að í ár hafi þau að miklu leyti aukið við þá þjónustu sem þau veita beint úr bílnum. Fólk hafi nú aðgang að sýklalyfjameðferðum og endurkomum í bílinn. Hún segir að þau bjóði upp á raunverulega nærsamfélagsþjónustu og að slík þjónusta á vettvangi skili miklum árangri og auki meðferðarheldni.

Að sögn Svölu vantar verkefninu enn fjármagn. Þá sérstaklega vegna þess starfs sem hún vinnur á daginn, en bíllinn sjálfur er aðeins starfræktur á kvöldin.

„Ég næ því miður ekki að sinna allri eftirspurn. Bíllinn er á kvöldin, en í bílinn koma inn allskonar mál sem er ekki hægt að sinna á kvöldin. Þá er fólk til dæmis að óska eftir aðstoð við að komast í vímuefnameðferð, fá geðþjónustu eða félagsþjónustu. Við erum með barnaverndarmál þar sem konur í virkri vímuefnanotkun verða barnshafandi. Það eru allskonar mál sem ég sinni á daginn til að koma málum þeirra í farveg innan félags- eða heilbrigðiskerfisins. Þetta er sú þjónusta sem hefur vaxið mikið hjá okkur,“ segir Svala.   

Markmið að halda fólki á lífi

Að auki við þessa þjónustu segir Svala að aðstandendur leiti einnig til þeirra og veiti hún þeim bæði sálrænan stuðning og leiðbeiningar. Hún segir það gríðarlega mikilvægt að halda líflínunni opinni á milli aðilans sem býr við mikið fíknivanda og aðstandenda.

„Grunnmarkmið skaðaminnkunar er alltaf að halda fólki á lífi. Að einstaklingurinn lifir þennan kafla af í lífinu. Þess vegna er mikið af þjónustunni okkar í formi neyðaraðstoðar,“ segir Svala að lokum.

Þrjár sýningar í kvöld - allur ágóði rennur til Frú Ragnheiðar

Styrktarsýning Lof mér að falla verður í Háskólabíói klukkan 20:50 og 21:00. Þá er einnig sýning í Borgarbíói Akureyri klukkan 17:00.

Að sýningu lokinni í Háskólabíó munu Baldvin Z leikstjóri kvikmyndarinnar og verkefnastýra Frú Ragnheiðar Svala Jóhannesdóttir sitja fyrir svörum.

Allur aðgangseyrir rennur til skaðaminnkunarverkefna Rauða krossins, Frú Ragnheiðar, Ungfrú Ragnheiðar á Akureyri og Konukots. Einnig er hægt að styrkja skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins með því að senda SMS-ið TAKK í númerið 1900.

Sjá einnig: „Ég rændi, braust inn og seldi allar eigur mínar“

Um 45 þúsund manns hafa séð myndina. Síðasta sunnudag og mánudag var síðan frumsýnd heimildarmynd þar sem farið var í sögurnar sem eru á bak við kvikmyndinni. 

Sjá einnig: Sögurnar bak við Lof mér að falla

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Lífið

Sögurnar bak við Lof mér að falla

Menning

Bíó­dómur: Skítug tuska framan í smá­borgara

Lífið

„Ótrúlegur fjöldi búinn að deyja í ár vegna fíknarinnar“

Auglýsing

Nýjast

Veður­við­varanir og verk­föll stöðva ekki Sam­fés

Starfsfólk Porsche fékk 1,3 milljónir í bónus

​Lokanir á Lyng­dals­heiði, Hellis­heiði og Þrengslum

Leggja fram þriðja orku­pakkann „á ís­lenskum for­sendum“

„Óbilgirnin er svakaleg“

Élja­bakki og hvassvirði nálgast suð­vestur­hornið

Auglýsing