Síðdegis í dag var lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynnt um ágengan rósasölumann í Laugarneshverfi í Reykjavík en maðurinn gekk í hús og bauð rósir en var ekki ánægður með greiðslur eða mótttökur sem hann fékk frá íbúum.

Þetta kemur fram í dagbók lögrelgu en þá skapaðist einnig umræða meðal íbúa í Laugarneshverfinu á Facebook um athæfi mannsins og ljóst að hann hefur farið í þónokkur hús. 

Í samtali við Fréttablaðið segir Kári Martinsson Regal, einn íbúanna sem fékk manninn í heimsókn, að heimsókn mannsins hafi verið afar óþægileg en þrettán ára gömul dóttir hans fór til dyra. Kári sagði einnig frá heimsókninni á umræddum Facebook hóp.

Þar kemur fram að maðurinn hafi verið með bók með mynd af veiku barni. „Síðan bað hann um pening fyrir læknisaðstoð og var vægast sagt mjög ágengur, kom óboðinn inn fyrir og grátbað. Hún hafði bara 1000 kr til að gefa. Hún var hrædd við manninn.“