„Það er mikið af ungum og óvönum krökkum á æfingasvæðinu, við verðum að geta tryggt að þau séu örugg,“ segir Sigríður Kristín Hafþórsdóttir, framkvæmdastjóri hestamannafélagsins Sörla í Hafnarfirði, um aukinn ágang fólks á reiðvegina. Hestafólk hefur orðið vart við mikla umferð hlaupafólks, hjólreiðamanna og fleiri á reiðvegunum, sem skapi mikla hættu.

Formenn hestamannafélaganna á höfuðborgarsvæðinu funduðu í gærmorgun um þetta vandamál og hvað hægt væri að gera. Sigríður segir vanta betri merkingar og að fólk sýni því skilning að einungis hestafólk eigi að vera á þessum vegum.

„Við erum að mæta fólki á hlaupum í litríkum hlaupagöllum og fólki með blikkandi ljós á reiðhjólum. Hestarnir eru flóttadýr og ef þeir fælast hlaupa þeir sem hraðast í burtu. Hérna hjá okkur er hraun allt um kring og ekkert grín ef hestarnir taka af stað út af örmjóum stígum,“ segir hún. „Fólk hefur margsinnis fallið af baki vegna þessa. Sem betur fer hefur ekkert mjög alvarlegt slys orðið, en það er aðeins tímaspursmál ef þetta heldur svona áfram.“

Hestamennska er ekki áhættulaus íþrótt og fyrir aðeins einu og hálfu ári varð banaslys nærri hesthúsahverfinu að Hlíðarþúfum í Hafnarfirði. Sörli er með tvo hringi reiðvega í Gráhelluhrauni sem Hafnarfjarðarbær gerði fyrir félagið og Sigríður bendir á að nóg sé af öðrum stígum á svæðinu sem útivistarfólk geti nýtt sér.

Það er ekki aðeins hlaupafólk og hjólreiðamenn sem sést hafa á reiðvegunum. Svokallaðir buggybílar hafa sést, sem og vélhjól af ýmsum toga. Um síðustu helgi var ung stúlka ríðandi á öðrum veginum í Gráhelluhrauni þegar þrjár vespur komu aðvífandi. „Flestir bera því við að þeir viti ekki betur, en það er líka fólk sem heldur því fram að það megi nota vegina. Einu skiltin sem eru sýna bann við ökutækjum,“ segir Sigríður.

Undanfarin ár hefur orðið vitundarvakning í samfélaginu hvað varðar útivist og hreyfingu. Eru upplönd höfuðborgarsvæðisins sífellt vinsælli útivistarsvæði og ágangurinn á reiðvegina fylgifiskur þess. Takmarkanir vegna faraldursins hafa aukið á vandamálið.

„Eftir að sundstöðunum og líkamsræktarstöðvum var lokað vegna COVID-19 hefur ágangurinn í uppland Hafnarfjarðar orðið enn meiri en áður var,“ segir Sigríður. „Það er frábært að fólk hreyfi sig en ekki á okkar æfingasvæði. Ekki dytti okkur í hug að fara í útreiðartúr inni á frjálsíþróttabraut eða á golfvelli.“