Kvikmyndin Against the Ice í framleiðslu Baltasars Kormáks, RVK Studios, í samvinnu við bandarísku streymisveituna Netflix fékk tæpan hálfan milljarð í endurgreiðslu úr ríkissjóði á síðasta ári vegna kostnaðar við framleiðslu kvikmyndarinnar hér á landi. Er það hæsta endurgreiðslan sem greidd var út 2022.

Baltasar Kormákur og danski leikarinn og framleiðandinn, Nikolaj Coster-Waldau, eru aðalframleiðendur kvikmyndarinnar en hún er byggð á sannsögulegum atburðum, ótrúlegri þrekraun pólfara sem urðu innlyksa á Grænlandi um langt skeið snemma á tuttugustu öldinni.

Íslensku leikararnir Gísli Örn Garðarsson og Heiða Rún Sigurðardóttir fara með aðalhlutverk í myndinni auk annarra stórleikara.

Skilyrðum háð

Framleiðendur kvikmynda eða sjónvarpsefnis á Íslandi eiga kost á 25 prósenta endurgreiðslu af framleiðslukostnaði sem fellur til hér á landi, eða 35 prósent í ákveðnum tilfellum.

Endurgreiðslurnar eru þó skilyrðum háðar. Til þess að framleiðendur geti átt kost á 25 prósenta endurgreiðslu þarf framleiðslan að koma íslenskri menningu á framfæri, kynna sögu lands eða náttúru. Einnig stuðla að aukinni reynslu, þekkingu á listrænum metnaði þeirra sem að framleiðslunni standa.

Til þess að njóta 35 prósenta endurgreiðslu þurfa verkefni að auki að uppfylla þrjú önnur skilyrði. Kostnaður sem fellur til hér á landi þarf að vera að lágmarki 350 milljónir króna. Tökudagar verkefnisins þurfa að vera að lágmarki þrjátíu en inni í þeim má telja daga við eftirvinnslu. Heilir starfsdagar við tökur og eftirvinnslu þarf þannig að vera að lágmarki þrjátíu dagar en tökudagar mega að sama skapi ekki vera færri en tíu dagar.

Fjöldi starfsmanna sem koma með beinum hætti að framleiðslunni hér á landi þurfa að vera að lágmarki fimmtíu og er þar miðað við heilan starfsdag. Heimilt er þó að telja bæði launþega og verktaka við framleiðsluna.

Á síðasta ári hlutu alls 86 verkefni endurgreiðslu úr ríkissjóði, þar af voru 64 innlend verkefni og 22 erlend.