Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, bauð fulltrúum alþjóðlegu samtakanna ICAN á afvopnunarráðstefnu á vegum Atlandshafsbandalagsins sem fram fer á Íslandi í haust. Hún fundaði með fulltrúum ICAN eftir að leiðtogafundi bandalagsins lauk í dag.
Samtökin sem berjast fyrir eyðingu kjarnorkuvopna hlutu friðarverðlaun Nóbels í fyrra. Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að mikilvægt sé að samtal eigi sér stað milli ríkja NATO og þeirra grasrótarsamtaka sem hafa staðið fremst í flokki í baráttunni fyrir afvopnun.
Katrín gerði afvopnun að sérstöku umtalsefni á fundinum í gær þar sem hún lagði aðaláherslu á kjarnorkuafvopnun ásamt því að tala fyrir heimsfriði.
Hún tók einnig þátt í hliðarviðburði þar sem hún ræddi sérstaklega um öryggi á breiðum grunni og talaði fyrir því að byggja friðsamlegri heim meðal annars með þróunarsamvinnu, auknum jöfnuði og jafnrétti og aðgerðum gegn loftlagsbreytingum.
Daginn endaði hún með að hitta Claire Hutchinson, sérstökum fulltrúa framkvæmdarstjóra Atlantshafsbandalagsins í málefnum kvenna, friðar og öryggis.
Athugasemdir