Rúður hafa brotnað í mörgum bifreiðum í Öræfum eftir hvassviðrið í morgun.

„Afturrúðan brotnaði í bílnum hjá mér. Bíllinn stóð á sama stað og hann hefur alltaf gert. Ég hef búið hér í fjórtán og ég hef ekki lent í þessu áður,“ segir Sigrún Sigurgeirsdóttir á Fagurhólsmýri í samtali við Fréttablaðið.

Samkvæmt tölum frá veðurathugunarstöðinni á svæðinu fór vindhraði upp í 43 metra á sekúndu í kringum áttaleytið í morgun.

Mynd/Veðurstofan
Afturrúðan á bílnum hennar Sigrúnar virðist hafa sogast inn vegna loftþrýstingingsins: ekki eitt glerbrot á planinu, allt inni í bílnum.
Mynd: Sigrún Sigurgeirsdóttir

Rúður brotnuðu líka í dráttarvél í eigu bróðurdóttur Sigrúnar sem var á svipuðum slóðum og bíllinn. Sigrún telur að afturrúðan hafi brotnað út af þrýstingi. Ekkert glerbrot fannst á planinu í kringum bílinn heldur var allt inni í bílnum.

„Í gær stóð ég við eldhúsgluggann minn og horfði á rúðuna hreyfast til í rokinu. Ég var þó ekki smeyk að hún myndi brotna,“ segir Sigrún. Hún hefur heyrt svipaðar sögur frá öðrum íbúum í Öræfum.

Jón Ágúst Guðjónsson frá Skaftafelli kom að bílnum sínum í morgun og tók eftir því að afturrúðan hafi brotnað, alveg eins og hjá Sigrúnu.

Bíllinn hans Jóns.
Mynd: Jón Ágúst Guðjónsson