Vegagerðin hefur ákveðið að afturkalla val á tilboði í útboð á áætlunarflugi frá Reykjavík til Bíldudals, Gjögurs og Hafnar í Hornafirði.
„Í ljósi nýrra upplýsinga sem fram hafa komið telur Vegagerðin að mögulega hafi verið gerð mistök við mat á tilboðum og því hvort bjóðendur uppfylli kröfur útboðsgagna,“ segir í tilkynningu.
Þrjú tilboð bárust í áætlunarflugið, frá Flugfélaginu Erni, Flugfélagi Austurlands og Norlandair. Tók Vegagerðin tilboði þess síðastnefnda í allar þrjár flugleiðirnar.
Túristi greindi frá því að forsvarsmenn Ernis hafi í kjölfarið kært niðurstöðuna en Ríkiskaup komust að þeirri niðurstöðu að tilboð Ernis og Flugfélags Austurlands hafi ekki uppfyllt öll þau skilyrði sem sett voru í útboðinu. Voru tilboð þeirra beggja lægri en tilboð Norlandair.
Fram kemur í tilkynningunni frá Vegagerðinni að óskað hafi verið eftir frekari gögnum frá Flugfélaginu Erni ehf. og Norlandair ehf. sem breytt gætu matinu á hæfi bjóðenda. Að þeim upplýsingum fegnum verði valið endurmetið.