Útlendingastofnun hefur ákveðið að 124 umsóknir um alþjóðlega vernd, sem önnur Evrópuríki báru ábyrgð á á grundvelli Dyf linnar-reglugerðarinnar eða höfðu þegar verið afgreiddar með veitingu verndar í öðrum löndum, skuli fá efnislega meðferð.

Ástæðan er útbreiðsla kórónaveirufaraldursins sem hefur haft mikil áhrif á málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd hérlendis. Miklar ferðatakmarkanir hafa verið við lýði í Evrópu síðan faraldurinn hófst og þá hafa mörg ríki lokað tímabundið fyrir endursendingar umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Í ljósi ástandsins ákvað Útlendingastofnun fyrr á árinu að aðlaga tímabundið mat sitt á því hvaða mál væru tekin til efnismeðferðar.

Í 61 máli hafði ákvörðun verið tekin um brottvísun en þær voru afturkallaðar. Spurð segir Þórhildur Ósk Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, að þeir sem um ræðir séu enn á landinu en misjafnt sé hvort ákvörðunin hafi verið komin í ferli hjá kærunefnd útlendingamála.

„Við hefðum ekki getað afturkallað mál sem þegar hafði verið úrskurðað í,“ segir Þórhildur. Af þessum 124 umsóknum hafa 35 verið afgreiddar í efnislega. Átta fengu dvalarleyfi af mannúðarástæðum, 24 var veitt vernd eða viðbótarvernd en þremur synjað.

Faraldurinn hefur haft mikil áhrif á fjölda umsókna um alþjóðlega vernd síðustu mánuði. Fyrstu tvo mánuði ársins bárust 88 umsóknir hvorn mánuð. Í mars voru þær 58 talsins en síðan hrundi fjöldinn þegar fyrsta bylgja faraldursins gekk yfir. Umsóknirnar voru aðeins 5 í apríl, 4 í maí en síðan 19 í júní. Í júlí, þegar flugsamgöngur jukust, voru umsóknirnar 116 talsins.