Í dag er Evrópudagur vitundarvakningar um sýklalyf en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur ásamt öðrum alþjóðlegum stofnunum lýst því yfir að sýklalyfjaónæmi sé ein mesta heilbrigðisógn sem steðji að mannkyninu í dag.

„Sýklalyf voru tímamótauppgötvun og ef við verðum ónæm fyrir þeim erum við komin aftur til baka fyrir síðari heimsstyrjöldina þar sem fólk dó úr sýkingum af sári eða lungnabólgu,“ Anna Margrét Halldórsdóttir, yfirlæknir á sóttvarnasviði embættis landlæknis.

Anna segir skynsamlega notkun sýklalyfja lykilatriði til að stemma stigu við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Árlega látist um 33 þúsund manns í Evrópu vegna sýkinga af völdum baktería sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum.

Sýklalyfjaávísunum fækkað

„Því er mikilvægt að læknar noti sýklalyf með markvissum hætti, en sýnt hefur verið að bæði heildarnotkun sýklalyfja og hvernig þau eru notuð hefur áhrif á sýklalyfjaónæmi,“ segir Anna Margrét.

Sýklalyfjaávísunum fækkaði um 16 prósent á milli áranna 2019 og 2020 á Íslandi. Á síðasta ári var heildarfjöldi ávísana slíkra lyfja á hverja þúsund íbúa að meðaltali 505. Á tímabilinu 2015-2019 var meðalfjöldi ávísana 670 á hverja þúsund íbúa árlega.

Anna segir þennan árangur megi þakka átaki sem hafi verið gert í fræðslu til lækna og heilbrigðisstarfsfólks um notkun slíkra lyfja, en auknar sóttvarnir vegna Covid hafi einnig haft sitt að segja.

„Fræðslan felur í sér mikilvægi þess að ávísa sýklalyfjum skynsamlega. Sýklalyf eru ekki notuð við veirusýkingum eins og kvefi og flensu,“ segir Anna.

Sýklalyfjaónæmi minna hér á landi

Aðspurð um á hverju valið á lyfjunum skuli byggjast, segir Anna að nauðsynlegt sé að velja lyf sem virki á þá tegund bakteríu sem meðhöndluð sé. „Sum sýklalyf verka á ákveðnar tegundir baktería og aðrar ekki, við þvagfærasýkingu notar þú eina tegund og svo aðra við hálsbólgu og enn aðra við húðsýkingu.“

Þá segir hún mikilvægt að nota svokölluð fallbyssusýklalyf í lágmarki. „Það eru sterk sýklalyf sem virka á nánast allt og þau þarf að spara og nota við alvarlegri sýkingum,“ segir Anna. „Ef þú notar sýklalyf á rangan hátt þá ertu að auðvelda bakteríunum sem eru ónæmar að vaxa og taka yfir.“

Hún segir útbreiðslu sýklalyfjaónæmis minni hér á landi en víðs vegar í heiminum, nauðsynlegt sé þó að sofna ekki á verðinum. „Almenningur getur til dæmis hjálpað með því að klára sýklalyfjaskammtinn sem honum er ávísaður, ekki geyma afganginn uppi í skáp og nota síðar og ekki henda afgöngum í ruslið heldur láta farga í apóteki svo lyfin fari ekki út í umhverfið,“ segir Anna.

„Bakteríur eru býsna sniðugar og hafa sínar leiðir til að lifa af og þær dreifa ónæmisupplýsingum á milli sín þannig að ef við erum ekki á verði þá getur þetta orðið enn þá verra,“ segir Anna.