Losun gróðurhúsalofttegunda jókst um 3,3 prósent á árinu 2021 eftir verulega minnkun á árunum 2019 og 2020.

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands var heildarlosun hagkerfisins 2021 þó um fjórðungi minni en árið 2018.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í Hagsjá Landsbankans sem kom út í morgun en losunin hér á landi nálgast sama stig og fyrir heimsfaraldurinn.

Ekki upphaf nýrra tíma

Um og yfir 80 prósent af heildarlosun atvinnulífsins síðustu ár eru vegna landbúnaðar, skógrækt og fiskveiðar, framleiðslu málma, flutningum á sjó og flutningum með flugi.

Árið 2020 minnkaði losun gróðurhúsalofttegunda um 4,6 prósent í heiminum og vonuðust margir til að það yrði upphafið af nýjum tímum með minnkandi losun.

Það varð þó ekki raunin því samkvæmt nýjustu tölum jókst losunin um 6,4 prósent í fyrra og náði þar með aftur því stigi sem hún var á áður en heimsfaraldurinn brast á.

Aukning í iðnaðar- og orkuframleiðslu

Samkvæmt Hagsjá Landsbankans má rekja helstu ástæður aukningar til iðnaðar- og orkuframleiðslu á meðan aukningin hjá heimilum og í flutningum er enn ekki mikil.

Þá auki nýjar aðstæður er varða orkuframleiðslu og notkun orku ekki bjartsýni um að draga fari verulega úr losun á næstu árum. Í því samhengi er bent á stríðið í Úkraínu og lokun á orkukaup frá Rússlandi sem hafa breytt aðstæðum.