Um­sókn Berg­lindar Veigars­dóttur um nám í hjúkrunar­fræði við Há­skóla Ís­lands var hafnað á þeim for­sendum að hún hefur ekki lokið stúdents­prófi. Berg­lind er sjúkra­liði og hefur starfað sem slíkur undan­farin fimm ár, meðal annars á bráða­mót­töku Land­spítalans og gjör­gæslu­deild spítalans.

Berg­lind furðar sig á þessu, sér­stak­lega í ljósi þess að ný­lega var frum­varp Lilju Al­freðs­dóttur, mennta- og menningar­mála­ráð­herra, um að­gengi iðn­menntaðra að há­skólum sam­þykkt á Al­þingi með öllum at­kvæðum.

Var til­gangur frum­varpsins meðal annars að fólk með fjöl­breyttari bak­grunn fengi að­gang að há­skólum, en lengi hefur verið litið til stúdents­prófs sem aðal­inn­töku­skil­yrðis í há­skóla.

Hefur sjálf kennt fyrstu skrefin

Berg­lind vakti fyrst at­hygli á þessu í færslu á Face­book-síðu sinni þar sem hún sagði meðal annars að hún hafi lært mikið á þeim árum sem hún hefur starfað sem sjúkra­liði og langi að læra meira.

„Ég hef sjálf kennt fullt af hjúkrunar­nemum fyrstu skrefin í að­hlynningu, lífs­marka­mælingum, taka hjarta­línu­rit, þrýstings­sára­varnir, mót­töku sjúk­linga, virka hlustun, lí­k­um­búnað og svo margt fleira. En nei, ég kemst ekki inn í hjúkrunar­fræði. Ég hef veitt hjarta­hnoð og tekið þátt í endur­lífgun. Ég hef verið til staðar fyrir sjúk­lingana sem ég hef sinnt á sínum erfiðustu tímum,“ sagði Berg­lind meðal annars í færslu sinni.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segist Berg­lind hafa sótt um hjúkrunar­fræði­nám í Há­skólanum á Akur­eyri fyrir tveimur árum og komist inn. „Svo voru að­stæður heima fyrir þannig að ég náði ekki að klára klásusinn,“ segir Berg­lind sem sótti einnig um námið við HÍ. Þá fékk hún sama svar og nú: Þar sem hún hafði ekki lokið stúdents­prófi komst hún ekki inn. Þar sem frum­varp Lilju Al­freðs­dóttur var sam­þykkt á dögunum – og tók gildi strax – taldi Berg­lind að leiðin inn í námið við HÍ yrði greið en annað kom á daginn.

Góður grunnur

Berg­lind segir að sjúkra­liða­námið sé krefjandi nám alla jafna tekur þrjú ár að ljúka.

„Ef það er ein­hver góður grunnur fyrir hjúkrunar­fræði­námið þá er það sjúkra­liða­námið,“ segir Berg­lind sem kveðst sjá eftir því að hafa ekki sótt um námið í Há­skólanum á Akur­eyri. Þar sé um­sóknar­frestur liðinn og allt út­lit fyrir það að hún komist ekki inn í hjúkrunar­fræði­námið við Há­skóla Ís­lands. Hún segist einnig hafa sótt um námið í HÍ í ljósi þess að þar eru meiri mögu­leikar þegar kemur að verk­námi fyrir hjúkrunar­fræði­nema.

Að­spurð hvort hún eigi von á því að þessu verði breytt og hugsan­lega verði hægt að hliðra ein­hverju til segist hún ekki vita það. Sandra Franks, for­maður Sjúkra­liða­fé­lags Ís­lands, hafi sett sig í sam­band við hana og óskað eftir frekari upp­lýsingum. Berg­lind sagðist þó fyrst og fremst vilja vekja at­hygli á málinu því til­finning hennar sé sú að sjúkra­liða­námið sé stundum ekki metið að verð­leikum.

Í færslu sinni benti Berg­lind á að þeir sem hafa lokið annarri há­skóla­gráðu komist inn í námið og fyrir þá sé námið jafn­vel styttra. „Út af því að þau eru með há­skóla­gráðu! Sorry, en mér finnst þetta út í hött. Af hverju kemst ég ekki inn eftir þessar breytingar? Á ekki að standa við þetta? Hvernig væri að koma sér upp úr þessari stein­öld sem við lifum á?“