Olía er aftur farin að leka úr flaki El Grill­o á Seyðis­firði. Þetta stað­festir yfir­hafnar­vörður Seyðis­fjarðar við Frétta­blaðið. Olíu­lekinn er þó mun minni en síðustu ár og full­vissar hafnar­vörðurinn Frétta­blaðið um að að­gerðir sem ráðist var í í vor, sem áttu að kosta stjórn­völd um 38 milljónir, hafi skilað sínu.

Að­eins tveir mánuðir eru síðan steypt var yfir hluta flaksins, sem úr hafði lekið mikið magn olíu. Land­helgis­gæslan sá um að steypa yfir lekann neðan­sjávar en sam­göngu- og sveitar­stjórnar­ráð­herra á­kvað að ráðist yrði í. Á­ætlaður kostnaður að­gerðarinnar voru 38 milljónir.

Engan veginn eins slæmt og í fyrra

„Þetta er náttúru­lega bara hlutur sem gerist á hverju ári. Það er kannski ekkert hægt að benda á þennan eina stað sem var steypt yfir, þetta er náttúru­lega úti um allt þarna niðri,“ segir hafnar­vörðurinn í sam­tali við Frétta­blaðið en undan­farið hefur orðið vart um tals­vert af olíur­ákum á stórum hluta í firðinum. „Þegar sjórinn hitnar svona þá bara fer olían af stað.“

Hér sést vel olíurák í firðinum.
Fréttablaðið/Aðsend

„En það sem er á ferðinni núna er ekki nærrum því eins mikið og var í fyrra. Það eru að koma svona dropar upp, sem liggur við að maður geti sagt að séu á stærð við tí­kall. Einn svona dropi af olíu getur gert alveg risa­stóran flekk á yfir­borðið, sem er samt í raun ekkert annað en sjón­mengun,“ út­skýrir hann. Þannig geti einn slíkur dropi skilið eftir sig allt að tvö hundruð metra langa rák á yfir­borði sjávar.

Þetta magn olíunnar sé þó ekki mjög hættu­legt líf­ríkinu í kring. Í fyrra var á­standið þó mun verra og segir hafnar­stjórinn að úr flakinu hafi lekið mun stærri skammtar af olíu með til­heyrandi af­leiðingum; dauðum andar­ungum og olíu­menguðum fuglum. „Þetta er langt frá því að vera eins og í fyrra. Maður sér núna andar­unga hérna, sem maður sá ekki í fyrra, nema þá dauða. Hér er fullt af þeim núna. Maður sér líka ekki lengur olíu­mengaða fugla. Þannig þessar að­gerðir skiluðu alveg sínu.“

„En eins og ég segi þá er þetta ljótt. við erum að vinna í því að setja út svona upp­sog­spulsur, sem soga í sig olíuna,“ segir hafnar­stjórinn.

Kafa til að kanna lekann

Sigurður Ás­gríms­­son, yfir­­­maður sér­­að­­gerða­sveitar Land­helgis­­gæslunnar, sem stjórnaði að­gerðum við El Grill­o í maí síðast­liðnum, segir þá við Frétta­blaðið að gæslan muni á næstunni senda kafara á svæðið til að kanna flakið betur og at­huga hversu mikill lekinn er.

Um­hverfis­stofnun segir þá að olíu­leki í firði sé á á­byrgð hafnarinnar. Stofnunin verði þó bæði hafnar­yfir­völdum í firðinum og Land­helgis­gæslunni til taks.