Af­töku Lisu Mont­gomery var frestað á síðustu stundu en til stóð að hún yrði tekin af lífi í dag. James Hanlon, dómari í Indiana, frestaði af­tökunni en litlu mátti muna að Mont­gomery yrði fyrsta konan sem yrði tekin af lífi af banda­ríska ríkinu í 68 ár.

Mont­gomery, sem er 52 ára gömul, var dæmd til dauða árið 2007 fyrir mann­rán og morðið á hinni 23 ára gömlu Bobbie Jo Stinnett árið 2004 sem var komin átta mánuði á leið. Mont­gomery skar barnið úr kvið hennar og lét sem það væri sitt uns hún var hand­tekin degi síðar. Barnið lifði ó­dæðið af og var komið til föður síns.

Mont­gomery hefur setið í fangelsi í 16 ár en af­taka hennar átti að fara fram í kvöld.

Máls­vörn lög­fræðinga Mont­gomery var að hún hafi ekki verið með­vituð um gjörðir sínar vegna geð­raskana. Kvið­dómur féllst ekki á það og dæmdi hana til dauða, þar sem henni hafi verið ljóst hve al­var­legan glæp hún framdi. Verj­endur Mont­gomery voru síðar gagn­rýndir fyrir máls­vörnina.

Hanlon dómari féllst á þessa máls­vörn í nótt og frestaði af­tökunni.

Lisa Montgomery
Ljósmynd/AFP

Ekki réttlátt að taka hana af lífi

Að mati lög­manna Mont­gomery kom al­var­leiki geð­raskana sem hrjáðu hana er morðið átti sér stað kom ekki að fullu fram við réttar­höldin, einungis við á­frýjun er Mont­gomery var komin með nýja verj­endur. Þeir full­yrða að Mont­gomery hafi glímt við lang­vinnan heila­kvilla vegna á­verka sem hún hefur orðið fyrir um ævina. Verj­endurnir hafa beðið yfir­völd um að dæma hana frekar til lífs­tíðar­fangelsis en dauða.

Í úr­skurði dómarans segir að þau gögn sem voru lögð fyrir dóminn benda til þess að and­leg heilsa Mont­gomery sé það slæm að hún geri sér enga grein fyrir raun­veru­leikanum. Þar af leiðandi væri ekki rétt­látt af ríkinu að taka hana af lífi.

Í fangelsi hefur Mont­gomery sagt frá ævi sinni fram að morðinu í sam­ræðum við sér­fræðinga. Hún fæddist með á­fengis­heil­kenni, ólst upp við erfiðar að­stæður og var frá unga aldri beitt grófu líkam­legu og kyn­ferðis­legu of­beldi. Hálf­systir hennar var fjar­lægð af heimilinu af barna­verndar­yfir­völdum en ekki Mont­gomery og of­beldinu linnti ekki.

Þrátt fyrir að hún gerði við­vart um of­beldið hlaut Mont­gomery aldrei neina að­stoð. Hún giftist stjúp­bróður sínum 18 ára gömul sem beitti hana einnig miklu of­beldi.

Tíu manns hafa verið teknir af lífi í Banda­ríkjunum frá því að dóms­mála­ráðu­neytið á­kvað að hefja af­tökur aftur eftir 16 ára hlé. Donald Trump varð þá fyrsti for­setinn í 130 ár til að heimila af­tökur á stjórnar­skipta­tíma.