„Hagsmunum almennings er ekki þjónað með því að taka einstaklinga af lífi án þess að þeir hafi fengið tækifæri til að láta reyna á lögmæti aftökunnar fyrst,“ sagði Tanya S. Chutkan, dómari í undirrétti í Columbia í gær, en hún frestaði nokkrum aftökum á síðustu stundu með dómsúrskurði í gær.

Um er að ræða dauðarefsingar á vegum alríkisstjórnarinnar en ríkisstjórn Donalds Trump hefur stefnt að því að koma þeim aftur til framkvæmda eftir tæplega tveggja áratuga hlé. Fyrirætlanir stjórnarinnar hafa leitt til fjölda ágreiningsmála fyrir dómstólum í Bandaríkjunum þar sem mannréttindasamtök og verjendur hinna dæmdu leitast við að koma í veg fyrir aftökurnar með vísan til þess að þær standist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar um bann við pyndingum og ómannúðlegum refsingum.

Úrskurður Chutkan var kveðinn upp aðeins örfáum klukkustundum fyrir aftöku Daniels Lewis Lee, sem taka átti af lífi í Indiana-ríki klukkan fjögur að staðartíma í gær. Lee var dæmdur til dauða árið 1996 fyrir aðild að morði þriggja manna fjölskyldu. Lee var meðlimur í samtökum hvítra kynþáttahatara og þar sem um hatursglæp var að ræða var mál hans dæmt á grundvelli alríkislaga en ekki laga þess ríkis sem morðið var framið í.

Fer líklega til Hæstaréttar

Dómsmálaráðuneytið hefur þegar kært úrskurðinn til áfrýjunardómstóls og gert er ráð fyrir að málið fari fyrir Hæstarétt Bandaríkjanna á allra næstu dögum.

Standi niðurstaðan óhögguð verður ágreiningurinn um lögmæti aftöku með banvænni sprautu útkljáður fyrir dómstólum sem ákveða örlög dauðarefsinga alríkisins.

Síðast var maður tekinn af lífi á grundvelli alríkislaga í Bandaríkjunum árið 2003 en fyrir ári síðan tilkynnti Bandaríkjastjórn fyrirætlanir sínar um að fara aftur af stað með fullnustu dauðarefsinga.

Alls bíða 62 fangar, sem dæmdir hafa verið á grundvelli alríkislaga, dauðarefsingar og af þeim var áætlað að fjórir yrðu teknir af lífi í þessum og næsta mánuði.