Ríkis­stjóri Kali­forníu, Gavin New­som, hyggst í dag skrifa undir opin­bera til­skipun þar sem allar fyrir­hugaðar af­tökur í ríkinu verða stöðvaðar. Þeir 737 fangar sem eru á dauða­deild núna fá því tíma­bundinn gálga­frest fram í janúar 2023, eða á meðan New­som gegnir em­bætti ríkis­stjóra. 

Alls hafa 900 ein­staklingar verið dæmdir til dauða í Kali­forníu frá árinu 1978, en að­eins þrettán þeirra verið teknir af lífi. Þar að auki hafa ekki verið fram­kvæmdar neinar af­tökur í ríkinu síðan 2006 vegna deilna um af­töku­með­ferðir fyrir dóm­stólum. 

Ríkis­stjórinn, sem hefur áður lýst yfir and­stöðu sinni við dauða­refsinguna, segir að Banda­ríkin geti ekki talið sig leiðandi afl í heiminum á meðan landið tekur íbúa sína af lífi. Ríkis­stjórinn hefur hins vegar ekki vald til að af­nema lög ríkisins um dauða­refsingar en það er að­eins hægt með kosningu íbúa. Í kosningum árið 2016 voru lög um af­nám dauða­refsingar felld með rúmum helming at­kvæða.