Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífsins, segir það aug­ljóst mál að at­vinnu­leysi muni aukast með yfir­vofandi launa­hækkunum 1. janúar.

Sam­tök at­vinnu­lífsins leituðu til verka­lýðs­fé­laganna um tíma­bundna frestun launa­hækkana og lengingu kjara­samnings sem henni nemur en því var öllu hafnað um­ræðu­laust, samkvæmt SA.

Segja sam­tökin að heildar­­kostnaður fyrir­­­tækja á al­­mennum vinnu­­markaði vegna launa­hækkunar 1. janúar næst­komandi nemi 40-45 milljörðum króna á árs­­grund­velli.

Fram­kvæmda­stjórn SA tók í dag sam­hljóma á­kvörðun um að Lífs­kjara­samningurinn gildi á­fram eftir að Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra kynnti til­lögur stjórn­valda í átta liðum til létta á­lagið á fyrir­tækjum landsins m.a. með lækkun tryggingar­gjalds út árið 2021 og skatta­í­vilnunum til fjár­festinga. Um­­­fang þeirra nemur um 25 milljarða króna.

„Minn fyrsti kostur var sá að ná samningum við verka­lýðs­hreyfinguna um tíma­bundnar að­gerðir um efni lífs­kjara­samningsins til þess að koma í veg fyrir að fyrir­tæki þurfi að taka á sig þessar launa­hækkanir í þessu á­standi,“ segir Hall­dór Benja­mín í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Það er engin önnur leið en að taka að­lögunina út í verð­lagi eða at­vinnu­stigi eða bæði,“ segir hann enn fremur.

Sannfærður um að fleiri muni deila skoðun sinni þegar atvinnuleysitölurnar fara hækkandi

„Verka­lýðs­hreyfingin, í fyrsta skipti í tuttugu ár, valdi að fara þessa leið. Þess vegna er ég von­svikinn í dag og er sann­færður um að eftir því sem at­vinnu­leysis­tölurnar fara hækkandi frá mánuði til mánaðar muni fleiri Ís­lendingar deila þeirri skoðun minni,“ segir Hall­dór.

Út­lit er fyrir á­­fram­haldandi fækkun starfa á næstu sex mánuðum og skortur á starfs­­fólki er lítill, sam­kvæmt könnun sem Gallup fram­kvæmdi meðal stjórn­enda 400 stærstu fyrir­tækja landsins.

Ætla má að starfs­­mönnum fyrir­­­tækjanna í heild fækki um 2% á næstu sex mánuðum sem er sama á­ætlaða fækkun og í könnuninni í maí síðast­liðnum. Sé niður­­­staðan yfir­­­færð á allan al­­menna vinnu­­markaðinn gæti störfum fækkað um 2.600 á næstu sex mánuðum. Könnun er framkvæmd af Gallup fyrir SA og Seðlabanka Íslands ársfjórðungslega.

„Þetta er könnun sem við höfum gert í tvo ára­tugi árs­fjórðungs­lega með Seðla­bankanum og þetta eru lökustu fram­tíðar­horfur sem við höfum séð sem þar birtast,“ segir Hall­dór um niðurstöðurnar.

Efnahagslegar staðreyndir sem allar þjóðir fallast á

Halldór segist jafnframt sannfærður um að sú ákvörðun að láta launahækkanirnar standa muni hafa slæmar afleiðingar sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir.

„Ég segi í fullum fetum að af­staða verka­lýðs­hreyfingarinnar muni leiða til þess að fleiri missa vinnuna en hefði þurft að verða og þess vegna er þetta af­leidd á­kvörðun,“ segir Hall­dór og bætir við að það sé full­kom­lega fyrir­séð hvað gerist.

„Þetta þurfti ekki að vera svona. Það er bara aug­ljóst mál og það enginn mál­flutningur þetta eru bara ein­faldar efna­hags­legar stað­reyndir sem allar þjóðir fallast á nema ís­lensk verka­lýðs­hreyfing,“ segir Hall­dór að lokum.