Þýskaland og Bandaríkin senda Úkraínumönnum tugi skriðdreka til að takast á við innrásarher Rússa. Gengi hlutabréfa þýskra vopnaframleiðenda fer hækkandi.
Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, segir að þýsku Leopard 2-skriðdrekarnir verði komnir á vígvöllinn í Úkraínu í lok mars eða byrjun apríl.
Þýska ríkisstjórnin samþykkti nýlega að senda 14 þýska skriðdreka til Úkraínu til að aðstoða úkraínska herinn í stríðinu gegn Rússum.
Þjóðverjar hafa verið hikandi undanfarnar vikur við þá ákvörðun að senda skriðdrekana. Ríkisstjórn Olaf Scholz, kanslara Þýskalands, hefur engu að síður hingað til sent mikið af öðrum herbúnaði til Úkraínu, til að mynda 3.000 eldflaugar, hundrað þúsund handsprengjur og 22 milljónir skotfæra fyrir riffla og skammbyssur.

Þar að auki hafa Úkraínumenn þegið mikið af þýskum trukkum og hátæknibúnaði.
„Það er rétt að við höfum mjakast áfram hægt og rólega, en það er einfaldlega vegna reglugerðanna sem við verðum að fylgja við svona hættulegar aðstæður,“ sagði Olaf Scholz.
Ríkisstjórn Joe Biden samþykkti að senda minnst 30 M1 Abrams-skriðdreka. Bandaríkjamenn hafa að sama skapi einnig verið hikandi við að senda sína skriðdreka en sögðu það vera of flókið að þjálfa hermenn til að nota þá og eins væri viðhald mjög erfitt.
Hingað til hafa þýskir ráðamenn haldið því fram að þeir myndu aðeins senda þýska Leopard-skriðdreka til Úkraínu ef Bandaríkjamenn gerðu slíkt hið sama með sína M1 Abrams-skriðdreka.
Bretar hafa nú þegar samþykkt að senda sína Challenger-skriðdreka til Úkraínu.
Allir skriðdrekarnir eiga það sameiginlegt að þeir eru taldir hafa yfirburði yfir sovésku T-72-skriðdrekana sem rússneski herinn reiðir sig enn á. Skriðdrekarnir munu einnig koma til með að veita úkraínskum hermönnum meiri vernd á vígvellinum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra átti fyrir tilviljun fund með Olaf Scholz daginn sem tilkynning þýsku ríkisstjórnarinnar barst og sagði hún ákvörðunina vera stóra fyrir Þýskaland.
„Þetta er stefnubreyting sem við höfum séð í þessu máli. Það er því ekkert skrýtið að þeir gefi sér tíma í að ígrunda þessa ákvörðun,“ sagði Katrín.
Leopard 2 skriðdrekinn er álitinn vera einn besti skriðdreki í heimi og er mjög vinsæll meðal þjóða innan Evrópusambandsins, sem þýðir að auðvelt væri fyrir Úkraínumenn að nálgast bæði varahluti og auka skotfæri.
Ákvörðun þýskra stjórnvalda um að senda skriðdrekana til Úkraínu hefur einnig haft áhrif á verðbréfamarkaðinn.
Gengi hlutabréfa í Rheinmetall, sem framleiðir skriðdrekana í samstarfi við fyrirtækið Krauss-Maffei Wegmann, hefur rokið upp og er fyrirtækið nú metið á rúmlega tíu milljarða evra.
Stríðið í Úkraínu hefur ekki aðeins breytt viðskiptahorfum þýskra vopnaframleiðanda, heldur hefur það líka breytt viðhorfi margra Þjóðverja sem hafa sögulega séð verið mjög gagnrýnir á þátttöku Þýskalands í hernaðarátökum erlendis.