Afstaða, félag fanga, hefur ítrekað mótmælt því hvernig forstöðumenn fangelsa landsins beita agaviðurlögum, en félagið segir að oftar en ekki þjóni þau ekki tilgangi sínum.

„Saga unga mannsins á Hólmsheiði er skýrt dæmi um það og nánast óskiljanlegt að telja það ásættanlega refsingu að hefta aðgang hans að náminu, enda er nám algjör grunnur að allri betrun í kerfinu. Með margvíslegum hætti má bæta stuðning, þar með talið eftirlit, í stað þess að beita íþyngjandi viðurlögum,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu.

„Agaviðurlög í íslenskum fangelsum eru að mestu arfleifð fornaldarhugsunar þar sem viðurlögin eru oft margþætt, sem oftar en ekki ýtir undir veikindi fangans sem er iðulega fíknisjúkdómur og kemur harðast niður á fjölskyldu fangans og samfélaginu. Við ættum ekki að eiga í erfiðleikum með að finna betri aðferðir enda hafa þær verið teknar upp í mjög mörgum Evrópulöndum og þá sérstaklega á Norðurlöndunum sem eru auðvitað þau lönd sem við viljum bera okkur saman við en erum áratugum á eftir þegar kemur að fangelsismálum.“

Guðmundur bætir því við að Afstaða telji hóprefsingar með öllu óásættanlegar og vera aðeins til þess fallnar að valda ólgu meðal fanga sem beinist þá að þeim brotlega og getur auðveldlega sett viðkomandi fanga í hættu.

„Tilgangurinn virðist hreinlega vera sá að nota fangahópinn til að sjá um að framfylgja refsingu á hendur einum einstaklingi. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Með svipuðum hætti hefur fjölskyldum dómþola, oft og tíðum börnum þeirra, verið gert að taka út heimsóknarbann vegna agaviðurlaga. Að beita slíkum refsingum er að mati Afstöðu forkastanlegt,“ segir Guðmundur.

Fréttin er hluti af ítarlegri umfjöllun um fangelsismál sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Fleiri greinar eru að finna í tengdum fréttum hér að neðan.