Sumar­liði Ís­leifs­son lektor í sagn­fræði við Há­skóla Ís­lands segir af­sögn Sól­veigar Önnu Jóns­dóttur formanns Eflingar vera eins­dæmi í sögu verka­lýðs­hreyfinga hér á landi. RÚV greinir frá.

Sumar­liði, sem ritaði sögu Al­þýðu­sam­bands Ís­lands, segir þó að átök innan verka­lýðs­hreyfingarinnar á Íslandi séu ekki ný af nálinni en af­sögn á borð við Sól­veigar sé eitt­hvað sem ekki hafi áður gerst: „Ég man ekki dæmi þessa að for­maður í, við getum alveg kallað það öflugasta verka­lýðs­fé­lagi landsins, hafi hætt á miðju sínu starfs­tíma­bili þrátt fyrir að það hafi komið upp gagn­rýni á starfs­hætti við­komandi. Við skulum segja að þetta sé nánast ó­þekkt í sögu ís­lenskrar verka­lýðs­hreyfingar,“ segir Sumar­liði.

Hann segir málinu hvergi nærri lokið og Sól­veig gæti snúið aftur: „Þessi for­ysta sem þarna var komin til starfa að hún myndi verða til fram­tíðar, ekki síst með hlið­sjón af því að þegar síðast var kjörið í stjórnina að þá hlaut þessi stjórn, undir for­ystu Sól­veigar Önnu ein­mitt, hún hlaut mjög góðan stuðning, þannig að þetta er bara mjög sér­kenni­legt mál. Ég er nokkuð viss um að þessu máli sé ekki lokið. Það á auð­vitað eftir að koma allt mögu­legt fram í þessu sam­hengi. Kannski snýr hún aftur.“

Þá eigi ef­laust margt eftir að koma í ljós í þessu máli: „Þessi gagn­rýni, þetta er jú býsna hörð gagn­rýni sem hefur komið fram á stjórnar­hættina í Eflingu og niður­staða Sól­veigar Önnu og þá fram­kvæmda­stjórans orðin sú að þau verði þá að axla á­byrgð á þessum mis­stökum,“ segir Sumar­liði.