Afsláttardagarnir í nóvembermánuði höfðu nær eingöngu áhrif á kortaveltu á netinu. Verslunin í búðunum sjálfum, það er posavelta, fór hvorki upp né niður miðað við aðra daga um neinar teljandi upphæðir.

„Það virðist vera sem þessir afsláttardagar hafi nánast engin áhrif í verslununum sjálfum. Black Friday er aðeins stærri miðað við aðra daga. Þetta er nær allt á netinu,“ segir Sigrún Ösp Sigurjónsdóttir, forstöðumaður Rannsóknarseturs verslunarinnar, sem mælir veltuna.

Alls jókst kortaveltan um 12,4 prósent í nóvembermánuði miðað við nóvember í fyrra. Aukningin í netverslun í nóvember jókst um 112,5 prósent frá októbermánuði enda jólaverslunin komin á fullt skrið og þrír stórir afsláttardagar í mánuðinum. Það er Singles’ day, Black Friday og Cyber Monday.

„Fólk velur frekar að versla á Singles’ Day,“ segir Sigrún en dagurinn á uppruna sinn í Kína og er sá nýjasti sem Íslendingar hafa tileinkað sér. 11,4 prósent af veltu netverslunar fóru fram þennan eina dag, 11. nóvember. Það er nærri tvöfalt meira en nokkurn annan dag mánaðarins. Hafa ber í huga að hinir tveir dagarnir eru í lok mánaðarins þegar fólk hefur margt minna á milli handanna.

Mesta aukningin milli ára var í tónleikum, leikhúsi og öðrum viðburðum, aukning um rúmlega 6 þúsund prósent, enda aðstæður aðrar í faraldrinum. Þá var aukning til ferðaskrifstofa 650 prósent og í gistiþjónustu allt að 270 prósent.

Gjafa- og minjagripaverslanir fengu hins vegar 39 prósentum minna í sinn hlut og sala ÁTVR dróst saman um rúmlega 17 prósent.