Frestur til að ríkið nýti sér forkaupsrétt og hindri sölu á Fjaðrárgljúfri til einkaaðila með því að kaupa gljúfrið er runninn út. Hin heimsfræga náttúruperla er því á leið í einkaeigu og kann gjaldtaka að vera handan við hornið.

Fréttablaðið greindi frá því í síðasta mánuði að kaupandi væri fundinn að jörðinni Heiði og að seljendur hefðu samþykkt tilboðið. Ein helsta eign jarðarinnar er gljúfrið, sem Justin Bieber gerði heimsfrægt með viðdvöl sinni um árið. Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra vildi ekki tjá sig þegar blaðið spurði hvort ríkið ætlaði sér að nýta for­kaups­rétt svo náttúruundrið yrði í opin­berri eigu.

Selj­endur gengu að til­boði frá Ís­lendingi sem sam­kvæmt heimildum blaðsins hljóðar upp á 300-350 milljónir króna. Frestur til að nýta forkaupsréttinn rann út í síðustu viku. Varð ekki ljóst að viðskiptin yrðu að veruleika fyrr en ríkið afsalaði sér rétti til kaupa.

Málið heyrir að mestu undir um­hverfis-, auð­linda- og orku­ráð­herra, Guð­laug Þór Þórðar­son. Búist er við, samkvæmt heimildum blaðsins, að fasteignasalan sem selur Fjaðrárgljúfur fái staðfestingu frá ríkinu um að viðskiptin geti gengið í gegn á næstu dögum.

Landverðir Umhverfisstofnunar hafa sinnt gljúfrinu undanfarin ár. Ekki liggur fyrir hvort nýi eigandinn, íslenskur viðskiptamaður, áformar gjaldtöku. Fram til þessa hefur gljúfrið staðið gestum opið og aðgangur verið ókeypis.