Áfrýjunarnefnd hugverkastofu Evrópusambandsins (e. EUIPO) hafnaði áfrýjun bresku verslunarkeðjunnar Iceland Foods ltd. um endurupptöku máls sem snýr að einkaleyfi fyrirtækisins á nafninu Iceland innan Evrópusambandsins.

Áður var hugverkastofan búið að úrskurða niðurstöðu að vörumerkjaskráning Iceland Foods Ltd á orðmerkinu ICELAND í Evrópusambandinu væri ógild í heild sinni.

Með því er búið að fella úr gildi einkaleyfi fyrirtækisins á nafninu Iceland. Hægt er að lesa dóminn í heild sinni í færslu á LinkedIn neðar í fréttinni.

Fyrirtækinu er áfram heimilt að selja vörur sínar undir merkjum Iceland en fyrirtækið getur ekki komið í veg fyrir sölu á öðrum vörum undir merkinu Iceland.

„Þessi niðurstaða er stór sigur og tryggir þau verðmæti sem felast í því að tengja sig við upprunaland og hið verðmæta vörumerki Ísland,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

„Það er einnig líklegt að úrskurðurinn hafi áhrif á þróun alþjóðlegs hugverkaréttar og ánægjulegt að Ísland sé leiðandi í slíkri vegferð.“

Árið 2016 fór íslenska ríkið ásamt Íslandsstofu og Samtökum atvinnulífsins með málið fyrir dómstóla vegna einkaleyfis bresku matverslunarkeðjunnar í Evrópusambandinu og fjölda annarra ríkja.

Verslunarkeðjan var búin að beita sér gegn því að íslensk fyrirtæki gætu auðkennt sig með upprunalandinu á vörum sínum og þjónustu, meðal annars þegar kom að vörumerkjum eins og Inspired by Iceland og Icelandic.

Árið 2019 féllst Evrópska hugverkastofan á allar kröfur íslenska ríkisins er hún komst að þeirri niðurstöðu að vörumerkjaskráning verslunarkeðjunnar á orðmerkinu ICELAND væri ógild í heild sinni.

Iceland Foods Ltd ætti eftir sem áður orð- og myndmerki sitt og gæti haldið áfram að stunda viðskipti undir nafninu, en hefði ekki rétt til að stöðva skráningu íslenskra fyrirtækja sem nýta heitið.

Breska verslunarkeðjan vildi þrátt fyrir það ekki una niðurstöðunni og skaut málinu því til áfrýjunarnefndar EUIPO sem hafnaði því að málið yrði tekið upp að nýju.

„Þessi afdráttarlausa niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar er mjög ánægjuleg þótt málið sé í raun algjörlega fáránlegt,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

„Fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki skiptir höfuðmáli að geta vísað til upprunans ekki síst vegna þess að landið okkar er þekkt fyrir hreinleika og gæði. Það á enginn að geta slegið eign sinni á heiti fullvalda ríkis. “