Michael Machat, lögmaður Jóhanns Helgasonar í lagastuldarmálinu um Söknuð, lagði fram á þriðjudag áfrýjun vegna frávísunar málsins fyrir dómstóli í Los Angeles.

„Það er óhjákvæmilegt að bregðast við og ekki valkostur að gefast upp,“ segir Jóhann. Máli hans var í byrjun apríl vísað frá dómi í Los Angeles að kröfu lögmanna Warner og Universal og fleira tónlistarfyrirtækja sem var stefnt auk höfunda lagsins You Raise Me Up.

Dómarinn taldi samanburðargreiningu tónlistarfræðings sem vann fyrir Jóhann vera gallaða. Ekki væru slík líkindi með lögunum Söknuði frá 1977 og You Raise Me Up frá 2001 að það jafngilti lagastuldi.

Lögmaður Jóhanns hefur nú nokkurn frest til að leggja fram rökstuðning sinn fyrir áfrýjuninni. Meðferð mála fyrir áfrýjunardómstólnum mun dæmigert taka um eitt og hálft ár. Vinni Jóhann áfrýjunarmálið fer það aftur á borð dómarans sem vísaði því frá í apríl. Það er því enn löng vegferð fram undan hjá Jóhanni. Engin uppgjafartónn er þó hjá honum.

„Maður verður að líta á þetta þannig að það sem skiptir máli eru verðmætin í lífinu, fjölskyldan og slíkt en þetta er eitthvað sem maður getur auðvitað ekki látið afskiptalaust; það hefur aldrei verið valkostur,“ segir Jóhann sem undirstrikar að hann hafi aldrei beðið um að lenda í þessari atburðarás. „En það hefði ekki verið eðlilegt að sinna því ekki.“

Málinu fylgir mikil vinna og kostnaður sem eykst mikið úr því málinu var vísað frá. Bæði krefjast lögmenn Warner og Universal nú 48 milljón króna í málskostnað frá Jóhanni og hann þarf að leggja í áfrýjun á málinu sjálfu auk þess að halda uppi vörnum vegna málskostnaðarkröfunnar.

„Ég er alveg búinn að taka út höfundarlaunin mín næstu fjögur árin,“ segir Jóhann. Krafan á hendur honum varðandi 48 milljón króna málskostnaðinn verður tekin fyrir í Los Angeles 5. júní. Eins og fram hefur komið lýsir lögmaður hans kröfunni sem svívirðilegri í andmælum til réttarins.

Meðal þess sem dómari tiltók fyrir í frávísun sinni er að Söknuður og You Raise Me Up sæki bæði byggingu sína til írska þjóðlagsins Danny Boy. Jóhann segir að það fráleitt. Fyrrnefndu lögin tvö séu miklu líkari innbyrðis en hvort um sig írska laginu. Enskur lögmaður sem greindi mál hans árið 2008 hafi strax þá bent á að sé textinn við You Raise Me Up sunginn við lagið Söknuð eftir Jóhann hljómi það áfram eins og You Raise Me Up en sé textinn sunginn við Danny Boy sé eins og verið sé að syngja Danny Boy. „Þetta er mjög afhjúpandi og þeir sem hafa talað um Danny Boy í þessu samhengi hætta því.“