Tónlistarfyrirtækin Warner og Universal hafa áfrýjað ákvörðun dómstóls í Los Angeles um að hafna kröfu þeirra, um að Jóhann Helgason greiði þeim 323 þúsund dollara í málskostnað í lagastuldarmálinu um lagið Söknuð.

Áfrýjunin kemur á óvart, því að í herbúðum Jóhanns var talið að andstæðingar hans gætu ekki áfrýjað höfnun málskostnaðarkröfunnar. Annað er nú komið á daginn. Samkvæmt tilkynningu áfrýjunardómstólsins, verður áfrýjun Warner og Universal til meðferðar samhliða áfrýjun Jóhanns sjálfs, vegna þess að máli hans hafði verið vísað frá dómi. Á gengi dagsins í dag nemur krafan á hendur Jóhanni jafnvirði 44 milljóna króna.

„Það er tæplega nokkur ástæða til að ætla að það komi nokkuð út úr þessu fyrir þá,“ segir Jóhann. Í niðurstöðu dómarans varðandi málskostnaðarkröfuna hafi verið bent á fimm grundvallaratriði sem þyrfti að uppfylla svo dæma mætti Jóhann til að greiða lögmannskostnað Warner og Universal. Snerust þau meðal annars um hvort málatilbúnaður Jóhanns væri tilhæfulaus, út í hött og settur fram af illum hug.

„Dómarinn strokaði öll þessi atriði út og þetta er því fáránleg krafa en hún eru auðvitað gerð til að teygja og tefja málið. Þeir nota öll brögð sem þeir geta, sérstaklega til að auka kostnaðinn enda er slíkt ekkert sem þeir þurfa að hafa áhyggjur af,“ segir Jóhann sem sér fram á milljóna króna viðbótarkostnað vegna áfrýjunarinnar.

Miðað við vinnslu mála hjá áfrýjunardómstólnum segir Jóhann niðurstöðu þar að vænta í fyrsta lagi í desember 2021. Málið verði tekið fyrir af þremur dómurum. Verði þá fallist á kröfu hans um áfrýjun, hefjist málið upp á nýtt við dómstólinn í Los Angeles þar sem það var upphaflega rekið.

Jóhann segir málskostnaðarkröfu andstæðinga sinna hafa gert lögmanni hans kleift að setja inn gögn sem ekki hafi mátt leggja fram áður en muni nú gagnast í málinu öllu. Þetta eigi sérstaklega við um lögfræðiálit sem unnið var fyrir Jóhann í Englandi árið 2008 og hann telji hagstætt fyrir sig. „Og auðvitað vonar maður að á endanum verði úrskurður tveggja dómara af þremur manni í hag.“