Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu heldur uppi áframhaldandi viðbúnaði um helgina vegna möguleikans á því að glæpahópar grípi til hefndaraðgerða í kjölfar hnífsstunguárásarinnar á Bankastræti Club í síðustu viku. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvernig viðbúnaðinum er háttað eða hvort honum verður haldið áfram eftir helgina.

Fimmtíu og níu mál eru skráð í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í kvöld. Tilkynnt hefur verið um fimm þjófnaði, þar af eitt innbrot í bifreið og annað í hesthús. Þá hafa orðið þrjú umferðaróhöpp en engin slys.

Lögreglan hefur tvo menn grunaða um ölvunarakstur. Annar var ekki staðinn að akstri og neitar sök en vitni og upptökur þykja sanna hið gagnstæða. Hann hefur því verið vistaður í þágu rannsóknar málsins og blóðsýni tekið úr honum. Hinn var staðinn að verki og látinn laus að lokinni blóðsýnatöku.

Lögregla hefur sinnt 20 tilkynningum um ýmsa hluti, m. a. um hávaða, afbrigðilega hegðun, leigubílstjóra í vandræðum, hugsanlegt heimilisofbeldi, þjófnað, gripdeild, ágreining, ósætti á milli leiguaðila og fundin fíkniefnaáhöld, þ. e. sprautur og nálar.